Enska knattspyrnugoðsögnin Sir David Beckham segir rauða spjaldið sem hann fékk á móti Argentínu á Heimsmeistaramótinu í knattspyrnu árið 1998 hafa verið erfiðustu stund síns knattspyrnuferils. Ef ekki hefði verið fyrir Sir Alex Ferguson, þáverandi knattspyrnustjóra Davids hjá Manchester United sem og stuðningsmenn Manchester United hefði það reynst erfiðara fyrir hann að takast á við eftirmála rauða spjaldsins.

,,Ein mikilvægasta manneskjan á þessum tíma fyrir mig var Sir Alex Ferguson auk stuðningsmanna Manchester United. Ef það hefði ekki verið fyrir stuðningsmenn Manchester United á þessum tíma þá hefði það reynst mjög erfitt fyrir mig að komast yfir þetta atvik," sagði David Beckham í viðtali sem hann fór í Singapúr á dögunum.

Beckham var rekinn af velli í stöðunni 2-2 eftir að hafa brugðist illa við fíflalátum í Diego Simeone, þáverandi landsliðsmanni Argentínu. Leikurinn fór alla leið í vítaspyrnukeppni þar sem Englendingar töpuðu.

,,Ég vaknaði mjög snemma daginn eftir og framundan var flug til Bretlands sem ég var ekki mjög spenntur fyrir eftir að við féllum úr leik og miðað við það hvernig hann spilaðist fyrir mig. Ég vissi að það yrði erfitt fyrir mig að snúa aftur heim. Fljótlega eftir að ég vaknaði hringdi síminn minn og mín beið símtal úr númeri sem ég þekkti ekki. Ég ákvað að svara: 'David, þetta er stjórinn' var sagt hinum megin á línunni," það reyndist vera Sir Alex Ferguson sem hringdi í Beckham.

David segir alls konar tilfinningar hafa gert vart um sig eftir að Sir Alex spurði hann hvernig honum liði.

,,Hann sagði við mig: 'Sonur, taktu þér þriggja vikna frí, hvíldu þig og þegar að þú kemur til baka munum við taka vel á móti þér og hugsa um þig hér hjá Manchester United.' Þetta var það sem kom mér í gegnum næsta tímabil eftir heimsmeistaramótið.

Næsta tímabil reyndist vera hið sögufræga þar sem Manchester United varð Englandsmeistari, enskur bikarmeistari og Evrópumeistari.

Í viðtalinu í Singapúr bætti Beckham síðan við að markið sögufræga á móti Grikklandi árið 2001 í undankeppni HM 2002 hafi verið besta stund síns knattspyrnuferils. En það mark tryggði Englendingum sæti á HM 2002.

,,Fyrir mér er það stundin sem stór hluti þjóðarinnar fyrirgaf mér fyrir það sem hafði gerst á móti Argentínu nokkrum árum áður."