Breski UFC-bardagakappinn Paddy Pimblett vann um helgina bardaga sinn gegn Jordan Leavitt á UFC bardagakvöldinu í Lundúnum. Það var hins vegar ekki frammistaða Paddys í búrinu sem vakti mesta athygli heldur viðtal við hann eftir bardagann þar sem hann talaði opinskátt um andlega heilsu og erfiðar fréttir sem hann fékk daginn fyrir bardagann.

Paddy hafði, í aðdraganda bardagans, fengið átakanlegar fréttir en einn af vinum hans framdi sjálfsmorð degi fyrir bardaga hans í Lundúnum. Paddy hvatti karlmenn til þess að tala opinskátt um vandamál sín og andlega heilsu fremur en að birgja inni vanlíðan sína.

,,Karlmenn tala ekki nóg um tilfinningar sínar, konurnar eru mun betri í því en flestir karlmenn telja að með því að tala um tilfinningar sínar og vandamál séu þeir að veikja stöðu sína," sagði Paddy í viðtali eftir bardaga sinn.

,,Þú ert ekki veikburða ef þú tjáir þig um vandamál þín, þú ert sterkari en flestir ef þú opnar þig og leitar hjálpar eða huggunar hjá vinum þínum."

Viðtalið við Paddy má sjá hér fyrir neðan: