Bandaríski körfuboltamaðurinn Terrell Vinson sem hefur leikið með Njarðvík og Grindavík hér á landi gagnrýnir Grindvíkinga harkalega í viðtali sem birtist á mbl.is í gærkvöld.

Vinson kom til landsins í fyrra og lék með Njarðvík á síðasta tímabili. Honum bauðst að semja við Grindavík og þáði hann það í sumar en það entist stutt.

Meiðsli tóku sig upp í öðrum leik Grindvíkinga gegn Skallagrím og var þá tekin ákvörðun um að rifta samningi hans og samdi Grindavík við Lewis Clinch Jr. í þriðja sinn í stað Vinson.

Hann segir upplifun sína eins og hann hafi verið rusl í augum stjórnar körfuknattleiksdeildar Grindavíkur en hrósaði Jóhanni Ólafssyni, þjálfara liðsins í viðtalinu.

„Um leið og ég meiddist fór allt til fjandans og það hratt. Það var hætt að koma fram við mig eins og manneskju,“ sagði Vinson og bætti við:

„Það var eins og ég færi úr því að vera manneskja í þeirra augum og í eitthvert rusl sem mátti brenna og losa sig við. Ég meiddist 11. október og daginn eftir mætti formaðurinn heim til mín og rak mig á staðnum. Það var mikil óvissa sem fylgdi. Ég hafði ekki hugmynd um hvort félagið myndi standa með mér í gegnum meiðslin og hjálpa mér að fá meðferð við þeim,“ í samtali við Mbl.is.

Hann stóð í stappi við stjórn Grindavíkur í endurhæfingunni eftir að hafa slitið krossbönd. Hann er í endurhæfingu á Íslandi enda eru slíkar aðgerðir rándýrar í Bandaríkjunum en segir að stjórnin hafi hent honum úr íbúðinni og neitað að borga undir hann húsnæði.

Segir hann í samtali við mbl.is að hann hafi eytt jólunum á heimili leikmanns sem var í Bandaríkjunum yfir jólin þvert á vilja stjórnar félagsins og að hann hafi rætt við aðra leikmenn en aldrei heyrt af annarri eins meðferð í áhugaverðu viðtali sem lesa má hér.