Magni Fannberg hefur starfað sem knattspyrnuþjálfari og síðar það sem kallað er þróunarstjóri í Svíþjóð og Noregi í tæpan áratug. Magni, sem er alinn upp fyrir vestan og þjálfaði þar og síðar hjá Fjarðabyggð, Val, HK og Grindavík, fór fyrst út til þess að þjálfa unglingalið sænska liðsins Brommapojkarna.

Unglinga- og akademíustarf Brommapojkarna er rómað og liðið hefur skilað af sér leikmönnum sem leika með stærstu liðum Svíþjóðar, með yngri landsliðum Svía og síðar A-landsliðinu. Síðar tók hann við sem þjálfari aðalliðs Brommapojkarna.

Fjölskylda hans hefur búið í Stokkhólmi frá 2009 en í upphafi árs árið 2016 venti hann kvæði sínu í kross og tók við starfi þróunarstjóra hjá norska liðinu Brann í Bergen. Hann bjó þá í Bergen en flaug reglulega heim til fjölskyldu sinnar sem bjó áfram í Stokkhólmi.

Fluttu út vegna náms hjá eiginkonunni

„Það var í raun tilviljun að ég komst að hjá Brommapojkarna. Ég flutti til Stokkhólms með konu minni sem var að fara í mastersnám við Karolinska Institutet. Ég var beðinn um að aðstoða við þjálfun hjá félaginu og það þróaðist í þá átt að ég var orðinn aðalþjálfari karlaliðs félagins. Það var ekki í kortunum þegar ég flutti út,“ segir Magni um upphaf þess að hann fór að starfa innan knattspyrnunnar í Svíþjóð.

„Starf mitt felst í grófum dráttum í því að að sjá til þess að gæðin í þjálfun leikmanna séu eins og best verður á kosið. Að allt sem við gerum sé gert á sem faglegastan hátt og allt sé vel undirbúið þegar þjálfarateymin hitta leikmennina og kynna æfingar dagsins fyrir þeim, og að allar æfingar séu vel undirbúnar. Leikmenn akademíuliðanna fá dagskrá frá okkur á hverjum degi um það hvernig þeir eiga að æfa, hvílast og nærast á milli æfinga.

Þá sé ég um að samræma störf akademíuliðanna og aðalliðsins og búa þannig um hnútana að þróun leikmanna akademíuliðanna inn í aðalliðið sé í réttum farvegi. Ég sé um það að setja saman, í samráði við þjálfara akademíunnar, æfingaplan fyrir leikmenn akademíuliðanna, það er skipulag um hvernig æft er, hvaða áherslur og ákefð er á hverri æfingu fyrir sig og endurheimt og næringu leikmanna á milli æfinga.

Mikil vinna að baki hverri æfingu

„Það fer mikil vinna í hverja æfingu hjá akademíuliðunum og það er fundað fyrir hverja æfingu þar sem farið er yfir nákvæmlega hvernig verður æft. Án alls hroka gagnvart íslenskum félagsliðum, þá er eiginlega hægt að líkja umhverfinu hér við þau lið sem ég starfaði hjá heima og aðstæður og vinnuumhverfi hjá AIK er ekki samanburðarhæft við það hvernig málum er háttað hjá íslenskum félagsliðum,“ segir Magni um það í hverju starf hans felst.

„Mitt helsta hlutverk er að undirbúa leikmenn aðalliðanna til þess að vera reiðubúnir til að æfa og leika með aðalliði félagsins. Þetta er aftur á móti mjög fjölbreytt starf og fer allt frá því að vera meðvitaður um líkamlegt ástand leikmanna, vera úti á æfingasvæði að fylgjast með æfingum og til þess að vera ráðgjafi í leikmannakaupum.

Ég er hálfgerður verkstjóri í sérfræðingateymi sem sér um þjálfun akademíuliðanna og aðalliðsins. Það eru miklar kröfur gerðar til leikmanna AIK og má nefna að fyrir hverja æfingu eru sýnd vídeó þar sem farið er yfir það sem eigi að fást út úr æfingu dagsins. Það er undir mér og þjálfurum akademíuliðanna komið að sjá um að leikmenn sem koma í gegnum í akademíustarfið séu klárir í að leika með aðalliðinu. Strákarnir í akademíunni æfa eins og atvinnumenn og temja sér fagmennsku í störfum sínum,“ segir hann enn fremur um starfslýsingu sína.

Sveitastrákur að vestan að upplifa drauminn

„Fyrir mér er AIK stærsta félagið á Norðurlöndunum með danska liðinu FC Köbenhavn. Þegar mér var boðið starfið hér á sínum tíma var ég virkilega ánægður hjá Brann og hlutirnir gengu ofboðslega vel þar. Þetta er hins vegar það stórt starf og fyrir utan það að það hentaði fjölskylduaðstæðum mínum betur, þá var ég mjög spenntur fyrir því að fá þetta starf. Það voru margir hæfir einstaklingar sem höfðu áhuga á þessu starfi og ég er verulega stoltur af því að hafa hreppt hnossið.

Það er síður en svo sjálfgefið að sveitastrákur að vestan fái svona tækifæri og þetta er stærsta starfið í þessum geira í Skandinavíu. Ég gerði fjögurra ára samning þegar ég tók við og sé fram á að klára þann tíma,“ segir þessi metnaðarfulli maður um upplifun sína af starfinu en hann hóf störf hjá AIK í mars fyrr á þessu ári.

„Það er ofboðslega mikill munur á umgjörð og öllu utanumhaldi í kringum AIK og önnur atvinnumannalið á Norðurlöndum og hjá íslenskum liðum. Ég er ekki viss um að knattspyrnuáhugafólk á Íslandi átti sig á því hversu mikill munurinn er. Það er hægt að líkja þessu við muninn á KR og Magna Grenivík.

AIK er þekkt fyrir það að standa sig vel í því að koma leikmönnum í akademíuliðinu að í aðalliðinu og sem dæmi um hversu öflugt akademíustarfið er þá seldi félagið sænska landsliðsmanninn Alexander Isak til Borussia Dortmund árið 2017 en hann var svo til Real Soci­edad á dögunum. Isak var dýrasti leikmaður í sögu Svíþjóðar.

Akademíustarfið hjá AIK í hæsta gæðaflokki

„Það er stefnan hjá AIK að berjast um sænska meistaratitilinn og akademíustarfið þarf því að vera gott til þess að leikmenn séu í stakk búnir að standast þá pressu og komast þar að. Markmiðið er svo bara líka að búa þannig um hnútana að leikmenn akademíunnar gangi í gegnum góðan skóla hvort sem þeir komast að hjá AIK eða annars staðar,“ segir Magni um tilgang og árangur akademíustarfsins hjá AIK. „Leikmenn fara í gegnum vel skipulagða og faglega rútínu þar sem þeim er kennt að haga sér og æfa eins og atvinnumenn hjá stóru félagi.

„Þessa stundina er ég mjög ánægður í mínu starfi. Þetta er fjölskylduvænna starf en að vinna sem þjálfari. Mér líður vel í þessu starfi og geri mér grein fyrir hversu heppinn ég er að fá að sinna því. Það hafa lið borið víurnar i mig og boðið mér þjálfarastörf en það hefur einfaldlega ekki heillað mig nægilega mikið. Það er hins vegar á hreinu að ég hef ekki þjálfað mitt síðasta lið.

Ég sé ekki fyrir mér að starfa sem þjálfari hjá félagsliði á Íslandi og ég er orðinn nokkuð mikill Skandínavíumaður og mitt sterkasta tengslanet er þar. Ég sé mig ekki vinna við annað en knattspyrnu komandi ár en það geta auðvitað orðið önnur störf tengd henni en þjálfun félagsliða á Íslandi. Það er erfitt að koma sér fyrir á meginlandi Evrópu hvort sem það er í því starfi sem ég sinni núna eða í þjálfun en ef það býðst einhvern tímann í framtíðinni myndi ég klárlega skoða það. Hugur minn er hins vegar hjá AIK núna og ég er mjög einbeittur á að standa mig vel þar og vera hér næstu árin,“ segir Magni um framtíðaráform sín.

Trúði því ekki þegar hann heyrði af áhuga AIK

„Það er algjör draumur að starfa fyrir AIK þó að mig hafi kannski ekki dreymt um þetta starf. Ég vissi vel að ég gæti staðið mig vel í þessu starfi en gat ekki látið mig dreyma um það þar sem ég vissi ekki að það væri í boði. Þegar ég frétti fyrst af áhuga AIK hélt ég að það væri verið að djóka í mér. Svo hringdu þeir og ég varð strax mjög spenntur og auðvitað dreymdi mig um það starf. Það er mikill stöðugleiki í stjórnunarstöðum hjá félaginu og vinnu­umhverfið algerlega til fyrirmyndar,“ segir Vestfirðingurinn.

Auk þess að starfa fyrir AIK var Magni fenginn inn í njósnateymi íslenska karlalandsliðsins fyrir undankeppni EM 2020 en honum var falið að leikgreina tyrkneska liðið og var hann í stúkunni á leik Íslands og Tyrklands á dögunum og var Erik Hamrén og Frey Alexanderssyni til halds og trausts á meðan á leiknum stóð.

„Það gefur mér mikið að geta lagt hönd á plóg fyrir íslenska landsliðið. Þetta gefur mér líka tækifæri til þess að koma heim og hitta vini og fjölskyldu sem er frábært. Ég hef mjög gaman af því að gera þetta fyrir íslenska liðið. Það er gaman að sjá hversu vel er að málum staðið hjá KSÍ og umgjörð liðsins hefur batnað undanfarin ár. Þetta starf heldur mér í tengslum við íslenskt knattspyrnusamfélag en ég sé ekki fyrir mér að starfa á annan hátt á Íslandi en í þessu starfi eða hjálpa á annan hátt til dæmis halda fyrirlestra fyrir KSÍ,“ segir hann um störf sín fyrir sambandið.