Aston Villa staðfesti í dag að unglingalið félagsins myndi mæta Liverpool í þriðju umferð enska bikarsins í kvöld eftir að kórónaveirusmit kom upp innan aðalliðsins.

Óvíst er hvort að leikur Aston Villa og Tottenham í ensku úrvalsdeildinni fari fram um næstu helgi.

Allir leikmenn aðalliðs Aston Villa eru komnir í einangrun sem og þjálfarateymi aðalliðsins.

Í þeirra stað koma leikmenn úr U23 og U18 ára liði Aston Villa sem æfa ekki með aðalliðinu en þeir fóru í skimun í gær og virðist ekkert smit hafa fundist því félagið staðfesti að leikurinn færi fram í kvöld rétt í þessu.

Rúmlega ár er liðið síðan Liverpool þurfti að senda varaliðið og aðstoðarþjálfara í heimsókn á Villa Park fyrir leik liðanna í átta liða úrslitum deildarbikarsins.