Barna­barn Liver­pool-goð­sagnarinnar Bill Shankly vill að styttan af honum fyrir utan Anfi­eld, heima­völl liðsins, verði fjar­lægð í ljósi frétta af þátt­töku Liver­pool í Ofur­deildinni.

Bill Shankly er stuðnings­mönnum Liver­pool að góðu kunnur en hann var stjóri liðsins á árunum 1959 til 1974. Undir hans stjórn vann liðið fjöl­marga titla; ensku deildina þrisvar, bikar­keppnina í tví­gang og Evrópu­keppnina einu sinni. Hefur Shankly, sem lést árið 1981, 68 ára að aldri, í­trekað ratað á lista yfir bestu knatt­spyrnu­stjóra sögunnar.

Chris Car­line, barna­barn Shankly, segir í við­tali við Liver­pool Echo að hann skammist sín vegna fyrir­hugaðrar þátt­töku Liver­pool í Ofur­deildinni. Segir hann að eig­endur Liver­pool hafi van­virt þau gildi og þá hug­mynda­fræði sem afi hans stóð fyrir á árum hans hjá fé­laginu.

Shankly lét ýmis eftir­minni­leg um­mæli falla á sínum tíma, um­mæli sem eiga jafn­vel betur við í dag en þegar þau voru sögð. Eitt af þeim birtist til dæmis á for­síðu Liver­pool Echo í dag, en for­síðuna má sjá hér neðst.

Car­line segir að ýmsir hafi vitnað í afa hans undan­farna daga – rétti­lega kannski – því hug­myndir um Ofur­deild séu svo fjarri því sem afi hans hefði viljað sjá. Bendir hann á að eitt af mark­miðum afa hans hafi verið að færa fólkið nær fé­laginu og fé­lagið nær fólkinu. Það hafi honum tekist.

„Þetta er sárt þar sem Liver­pool á sér ríka sögu og hefð sem hann tók þátt í að skapa. Það er al­gjör­lega ó­á­sættan­legt að fé­lagið sé eitt þeirra sex liða sem taka þátt í þessu,“ segir hann. Að­spurður segist hann fylgjandi því að styttan af Shankly, sem stendur fyrir utan Anfi­eld, verði fjar­lægð ef fé­lagið ætlar að taka þátt í Ofur­deildinni.