Viðar Halldórsson formaður aðalstjórnar FH og stjórnarmaður í ECA, hagsmunafls knattspyrnufélaga í Evrópu sem samanstendur af 200 félögum víða um álfuna, vill að íþróttahreyfingin vinni hraðar og skilvirkar. Aðspurður um hvað framtíðin beri í skauti sér fyrir íþróttafélögin segir Viðar að höggið sem íþróttafélög séu að verða fyrir sé nánast rothögg.

„Mín sýn á forystufólk í íþróttahreyfingunni er kannski öðruvísi en margra annarra. Mér finnst þetta orðið svo flatt einhvern veginn. Mér finnst, hvort sem þetta heitir hand-, fót-, eða körfubolti, eða hvaða nafn sem íþróttin heitir, að fólk hafi skoðanir en láti þær aldrei í ljós. Það er bara haldið kjafti og þagað. Það er eins og flatneskjan ráði för og mér finnst þetta vera að versna.“

Í þinggerð KSÍ frá síðustu ársþingum má sjá að knattspyrnuforystan hefur verið einkar léleg að tjá sig á þingunum. Það er þó nóg tuðað bak við tjöldin. Umsjónarmenn útvarpsþáttarins fótbolta.net hafa bent á að nóg sé rætt við þá um þetta og hitt, en enginn þori að stíga fram. Þess má geta að auk Viðars tóku til máls á síðasta ársþingi tveir aðrir fulltrúar um tug milljóna tap sambandsins.

„Í ECA er vissulega stór stjórn, en þar eru ákvarðanir teknar af allra stærstu félögunum. Þessir stóru ráða, en hugsa um leið vel um litlu félögin. Stóru félögin hafa þekkinguna, peningana og mannaflann. Það virðist ekki vera svipað hér á Íslandi. Það þarf að sjálfsögðu að huga vel að félögunum úti á landi en það er hellingur af félögum sem er tekið tillit til. Það er ekki vinsæl skoðun að kalla þetta bumbubolta en þannig félög eru að taka ákvarðanir um kvennabolta, barna- og unglingastarf og ýmislegt fleira. Mér finnst eins og það sé verið að taka of mikið tillit til þeirra.“

Viðar segir að hann hefði viljað sjá meiri hraða í þeirri vinnu sem hefur verið í gangi varðandi íþróttirnar. „Manni finnst að í svona ástandi eins og hefur verið að menn þurfi að leggja mikið á sig og vinna hlutina hraðar. Almannavarnateymið okkar, þríeykið okkar til dæmis. Það var sett í það fólk sem þekkir málin. Hópurinn er lítill sem mér finnst að íþróttahreyfingin ætti að horfa til. Í íþróttum eru allir með puttana í þessum málum. ÍSÍ, KSÍ, HSÍ, KKÍ, ÍBR, íþróttabandalög og héraðssambönd.

Hér eru ákvarðanir teknar of seint því ég efast um að stóru félögin á Íslandi láti litlu félögin út á klaka ef það þarf að ákvarða eitthvað. Það er hreinlega ekki í eðli manna.“

Viðar hefur verið formaður FH frá 2008 og setið í aðalstjórn síðan 2003. Hann var einnig formaður knattspyrnudeildarinnar um árabil. Erfitt er að finna reynslumeiri stjórnunarmann í íslensku íþróttalífi. Hann segir tímana nú vera verri en tímana eftir hrun.

„Það eru auðvitað miklir erfiðleikar hjá félögunum í landinu og ég held að félögin, hvort sem þau heita FH eða hvað, þá held ég að félögin hafi skoðað sín mál miklu miklu betur eftir þetta kjaftshögg. Þetta er reyndar meira en kjaftshögg, þetta er nánast rothögg. Að hluta til voru menn í allt of miklu kapphlaupi yfir einhverju sem þeir héldu að væri en of margir og þar á meðal við, ég dreg ekkert okkur út úr þessu, erum búnir að vera í rússíbana sem er erfiður og búnir að semja um of mikil útgjöld. Þetta högg mun setja menn á jörðina aftur og ég held að menn séu að sjá að það þurfi að breyta þessu og gera hlutina öðruvísi.

Núna held ég að það komi meiri samstaða. Það var oft eins og hver væri í sínu horni og héldu að þeir væru með svo flott módel og enginn mætti þar með vita hvernig þeir gerðu hlutina. En ég held að menn sjái að félögin eiga margt sameiginlegt sem fari saman.“

Viðar Halldórsson formaður FH.