Íþrótta- og tómstundaráð Reykjanesbæjar telur að nauðsynlegt sé að hækka styrki til íþróttafólks bæjarins sem ferðast til útlanda á vegum landsliða sinna.

Kostnaður leikmanna yngri landsliða í körfuknattleik, það eru leikmenn U-15, U-16 og U-18 hjá Keflavíkog Njarðvík nemur alls um sex milljónum króna. Inn í þessa tölu eru ekki leikmenn í U-20 ára liði karla og kvenna en þau hafa ekki verið valin. Þó nokkrir krakkar frá Suðurnesjum eru í hópnum. Þar þurfa krakkarnir að greiða hvert 279 þúsund krónur kvennamegin en strákarnir borga átta þúsundum minna.

Þeir sem eru í U-15 ára landsliðinu þurfa að borga rúmar 100 þúsund krónur fyrir að skara fram úr í sinni íþrótt og vera fulltrúi Íslands. Suðurnesjaliðin eiga 10 leikmenn í hópnum.

Sex koma frá Njarðvík en fjórir frá Keflavík. Þeir sem eru í U-16 þurfa að punga út 172 þúsund krónur fyrir Norðurlandamótið og 246 þúsund fyrir Evrópumótið eða alls 418 þúsund krónum. Þar eru fimm drengir frá Njarðvík.

Þau sem eru valin í U-18 ára liðið borga 172 þúsund og fimm hundruð krónum betur fyrir Norðurlandamótið og drengirnir borga 278 þúsund krónur í viðbót fyrir Evrópumót karla. Stelpurnar borga þrjú þúsund krónum minna fyrir að hafa komist á Evrópumótið.

Hannes S. Jónsson, formaður KKÍ, segir að það svíði að senda reikninga inn á heimili landsliðsfólks.

„Öll útgjöld heimila landsmanna sem tengjast landsliðsverkefnum finnst mér of há. Það er fátt sem auglýsir landið okkar betur en landsliðsfólkið okkar í íþróttum og listum,“ segir hann.

Hannes þvertekur fyrir að körfuboltinn sé aðeins fyrir hina efnameiri og bendir á að allar aðrar íþróttagreinar en fótboltinn borgi með landsliðsverkefnum.

„Auðvitað er körfuboltinn eins og allar íþróttargreinar fyrir alla en því miður þá þarf að greiða stundum meira fyrir börnin þegar þau ná árangri. Það er þannig hjá okkur í körfunni eins og öllum öðrum yngri landsliðum i íþróttum fyrir utan fótbolta. Á þessu ári er hlutur landsliðskrakka um 70 prósent af kostnaði við ferðirnar og þá er ekki talinn allur sá kostnaður sem tilfellur á skrifstofuna vegna starfsmanna eða t.d. laun landsliðsþjálfaranna allra. Við erum með átta yngri landslið í verkefnum erlendis og fjögur af þeim fara á tvö mót bæði NM og EM.“

Hannes bendir á að KKÍ reyni að fjármagna öll verkefni og félögin innan sambandsins reyna að aðstoða einnig sína krakka.

„Við hjá KKÍ erum alltaf að vinna í því að fá fleiri og stærri samstarfsaðila til liðs við okkur og því fleiri sem koma að borðinu með okkur þá getum við lækkað kostnað þeirra sem valin eru í landslið.“

Hann segir að sérsamböndin verði að fá meiri pening frá ríkinu aðspurður um hvað sé til ráða. „Númer eitt, tvö og þrjú er að ríkisvaldið, ásamt fyrirtækjum í landinu, komi betur að starfsemi sérsambanda og landsliðanna. Því svo er það hin lausnin, sem ég held að enginn vilji, hvorki við né krakkarnir og foreldrarnir, það er að hætta að senda landsliðin til keppni.“

Um styrki til íþróttafólks sem hefur verið valið í landslið Íslands í íþróttagrein sinni gilda eftirfarandi vinnureglur hjá Íþrótta- og tómstundaráði Reykjanesbæjar að sjóðurinn er að jafnaði einungis fyrir landsliðsfólk sem er 25 ára eða yngra. Ekki eru veittir styrkir til keppni eða æfinga með landsliðum innanlands og ef landsliðsfólk þarf að greiða einhvern hluta sjálft af flugfari eða gistingu skal það eiga rétt á styrk að upphæð 20.000 krónur. Þetta þak vill ráðið hækka og var vísað til vinnu við fjárhagsáætlun fyrir árið 2020.