UFC bardagakappinn Gilbert Burnes segir Conor McGregor ekki eiga roð í veltivigtardeild bardagasamtakanna, honum yrði rústað þar. Burns er í veltivigtardeildinni ásamt Gunnari Nelson og fleiri bardagaköppum.

Conor McGregor er þekktasta nafn UFC bardagasamtakanna, það verður ekki tekið af þessum fyrrum tvöfalda meistara. Hann hefur hins vegar ekki stigið inn í búrið síðan í júlí í fyrra þegar að hann fótbrotnaði í bardaga við Dustin Poirier.

Írski vélbyssukjafturinn hefur undanfarna mánuði verið duglegur við að henda út alls konar yfirlýsingum á samfélagsmiðlum varðandi endurkomu sína og hefur meðal annars ýjað að því að mæta til leiks í veltivigtardeildinni. Það er eitthvað sem Burns hefur enga trú á.

,,Hann er enginn bardagakappi til þess að berjast í veltivigt en ef hann vill prófa það þá skal ég með glöðu geði ganga frá honum," sagði Gilbert Burns við MMA Fighting.

Burns telur að Conor myndi ekki ráða við höggþyngdina í veltivigtinni. ,,Svo minnist ég nú ekki einu sinni á það hvernig honum myndi ganga ef bardaginn færi í gólfið því það yrði aldrei sanngjarn bardagi."