Arteta greindi frá þessu á blaðamannafundi í morgun fyrir leik liðsins gegn Newcastle United um næstkomandi helgi.

,,Ég talaði síðast við hann (Wenger) þegar að ég hitti hann á frumsýningu heimildarmyndar um hann fyrr í mánuðinum. Það var virkilega ánægjulegt að hitta hann aftur og spjalla við hann," sagði Arteta á blaðamannafundi í morgun en hann spilaði á sínum tíma undir stjórn Wenger hjá Arsenal.

Arteta segist vonast til þess að Wenger muni vera nálægari hjá félaginu í framtíðinni en Wenger greindi frá því á dögunum að hann hefði ekki heimsótt heimavöll liðsins, Emirates Stadium, síðan að hann hætti sem knattspyrnustjóri hjá félaginu árið 2018.

,,Vonandi getum við fengið hann til þess að vera nær okkur vegna þess að ég tel að hann geti haft mikil áhrif á alla hjá félaginu sökum virðingarinn, aðdáunarinnar og ástarinnar sem allir hjá Arsenal bera til hans fyrir það sem hann hefur gert fyrir félagið."

Aðspurður að því hvernig hlutverk Wenger gæti fengið innan félagsins, vildi Arteta gefa lítið upp: ,,Ég get ekki sagt ykkur það núna en ég væri til í að hafa hann nálægt mér vegna þess að ég tel hann geta hjálpað okkur mikið."

Wenger gerði garðinn frægan með Arsenal og starfar nú innan Alþjóða knattspyrnusambandsins (FIFA). Hann útilokar ekki þann möguleika að snúa aftur í þjálfun einn daginn. Hjá Arsenal vann Wenger ensku úrvalsdeildina í þrígang, varð enskur bikarmeistari sjö sinnum og stýrði liði Arsenal sem fór ósigrað í gegnum heilt tímabil.