Nicklas Bendtner hefur áfrýjað úrskurði yfirvalda í Kaupmannahöfn sem fóru fram á að lögreglan í borginni myndi gera Porsche Taycan Turbo S bifreið Bendtner upptæka vegna síendurtekinna brota fyrrum framherjans.

Hinn skrautlegi Bendtner lék lengst af með Arsenal en lék einnig fyrir Birmingham, Sunderland og Nottingham Forest á Englandi, Juventus í ítalska boltanum, Wolfsburg í Þýskalandi og Rosenborg í Noregi.

Málið fer því fyrir dómstóla en Bendtner hefur margoft verið tekinn undir stýri þrátt fyrir að hafa verið sviptur ökuleyfinu í Danmörku.

Í haust mætti Bendtner fyrir dómstóla og sagði að lögmaður hans hefði talið að honum væri enn heimilt að keyra í Danmörku þar sem hann væri enn með breska ökuskírteinið sitt.