Borussia Dortmund hóf í dag viðræður við Borussia Mönchengladbach um kaupverðið á Thorgen Hazard sem er ætlað að koma í stað Christian Pulisic.

Dortmund samþykkti á dögunum að selja bandaríska landsliðsmanninn Pulisic til Chelsea fyrir tæplega sextíu milljónir punda.

Félagið vill bæta við sóknarþenkjandi miðjumanni og samkvæmt heimildum Bild er Hazard efstur á óskalista Dortmund sem hóf viðræður við Mönchengladbach í dag.

Thorgan sem er yngri bróðir Eden Hazard hefur leikið með Mönchengladbach undanfarin fimm ár.

Honum tókst ekki að brjóta sér leið inn í lið Chelsea þegar hann var samningsbundinn enska liðinu og fór hann því til Þýskalands.

Þar hefur hann blómstrað hjá Mönchengladbach en talið er að Dortmund þurfi að greiða tæplega fjörutíu milljónir punda fyrir Thorgan.