Enska kvenna­lands­liðið í knatt­spyrnu hefur gefið í­þrótta­vöru­fram­leiðandanum Nike endur­gjöf varðandi nýja lands­liðs­búninginn sem liðið spilar í yfir Evrópu­mótið í knatt­spyrnu sem hófst í gær. Liðið segir það ó­heppi­legt að spila í hvítum stutt­buxum því mögu­leiki sé á því að leik­menn séu á túr þegar að þær spila leik á Evrópu­mótinu.

The At­hletic greinir frá þessu en Eng­lendingar unnu opnunar­leik mótsins gegn Austur­ríki á troð­fullum Old Traf­ford í gær­kvöldi. Beth Mead, leik­maður Arsenal skoraði sigur­mark leiksins og í við­tali eftir leik vék hún að því að enska lands­liðið hefði beðið Nike um að finna annan lit á stutt­buxur liðsins.

,,Það er eitt­hvað sem við höfum nefnt við Nike, vonandi verður breyting á. Þessi al­hvíti búningur er mjög fal­legur en hann er ekki hentugur á á­kveðnum tíma mánaðar," sagði Mead eftir leik Eng­lands og Austur­ríkis í gær.

Mead segir liðið hafa rætt þetta sín á milli. Ó­víst er þó hvort breyting verði á búningi liðsins á þessu móti.

Í í­þrótta­heiminum hefur spunnist upp um­ræða um klæða­burð kvenna. Kven­kyns tenni­s­kappar hafa áður greint frá and­lega stressinu sem fylgir reglum Wimbeldon um klæða­burð tenni­s­kappa, meðal annars hvítar stutt­buxur.

Þá haf kven­kyns leik­menn í krikett talað um það opin­ber­lega að það hafi byggst upp kvíði hjá þeim varðandi það að mögu­lega blæða í hvítan fatnað.