Mannréttindasamtökin Open Stadium hafa kallað eftir því að Alþjóðaknattspyrnusambandið (FIFA) sparki Íran af komandi heimsmeistaramóti í knattspyrnu sem fer fram í Katar og hefst í nóvember. Samtökin segja slæma meðferð stjórnvalda í Íran á konum brottrekstrarsök af mótinu.

Open Stadiums sendi á dögunum bréf til Gianni Infantion, forseta FIFA þar sem þess er krafist að Íran, land þar sem konum er meðal annars meinað að mæta á fótboltaleiki, verði vísað af HM í Katar.

Samtökin vitna í greinar þrjú og fjögur í lögum FIFA. Greinarnar sem vitnað er í fjalla um málefni mannréttinda og bann við mismunun á grundvelli kyns, kynþáttar, trúarbragða og annarra þátta og veitir FIFA heimild til þess að bregðast við slíkum brotum með, brottvísun úr FIFA.