Jón Þór Hauksson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins, segir að þjálfarateymið hafi tekið ákvörðun um að gefa Söru Björk Gunnarsdóttur frí í þessu landsleikjahléi vegna leikjaálags með félagsliðinu hennar.

Sara Björk leikur með Wolfsburg í þýsku deildinni þar sem liðið er komið í undanúrslit bikarsins ásamt því að vera að berjast um titilinn.

Þá eru framundan leikir í útsláttarkeppni Meistaradeildar Evrópu og fyrir vikið var ákveðið að gefa henni þessar tvær vikur til hvíldar.

„Hún er á þeim tímapunkti tímabilsins að það eru úrslitaleikir í hverri viku og mikið leikjaálag. Fyrir vikið töldum við best að gefa henni frí,“ sagði Jón Þór og hélt áfram:

„Við ræddum þetta strax síðasta haust, möguleikann á að gefa henni hvíld í þessu landsleikjahléi. Bæði mun hún njóta góðs af því með félagsliði sínu og landsliðinu í haust.“