Breski í­þrótta­miðillinn Sky Sports sá sér ekki fært að hafa eftir um­mæli Erik ten Hag, knatt­spyrnu­stjóra Manchester United, sem hann lét falla er hann las yfir leik­mönnum fé­lagsins eftir 7-0 út­reið liðsins gegn erki­fjendunum í Liver­pool í gær.

Eftir nokkuð jafnan fyrri hálf­leik misstu leik­menn Manchester United öll tök á leiknum og fengu í þeim hálf­leik einum og sér á sig sex mörk.

Sky Sports greinir frá því að skammar­ganga leik­manna frá búnings­klefum og upp í liðs­rútuna fyrir utan Anfi­eld hafi verið þögul. Leik­menn hafi verið beðnir um að tjá sig við fjöl­miðla en enginn hafi gefið kost á sér til við­tals á þeim tíma.

Einu við­brögðin sem fengust voru frá Bruno Fernandes, fyrir­liða liðsins, sem sagðist nú þegar hafa tjáð sig við Sky Sports í beinni út­sendingu eftir leik.

Sky Sports virðist hafa fengið veður af því hvað gekk á í búnings­klefa Manchester United eftir leik þar sem Erik ten Hag ræddi við leik­menn sýna.

„Á al­manna­færi notaði hann orð eins og "ó­fag­mann­legt" og "ó­á­sættan­legt". Skila­boðin sem hann kom á fram­færi við leik­menn sína voru hins vegar þess eðlis að ekki er hægt að hafa þau eftir."

Ten Hag reynir nú að koma sínum mönnum aftur upp á tærnar. Staðan er enn sú að liðið er í 3. sæti ensku úrvalsdeildarinnar og skammt er stórra högga á milli, næsti leikur Manchester United er gegn Real Betis í 16-liða úrslitum Evrópudeildarinnar.