Undir lok venjulegs leiktíma beindist myndavélin hjá Stöð2 Sport að Ísaki Erni Kristinssyni dómara leiksins. Hann átti þá í orðaskiptum við áhorfanda í stúkunni. Um var að ræða Huga Halldórsson athafnamann, Hugi er harður stuðningsmaður Tindastóls og mætir á flesta leiki.

Samskipti þeirra vöktu athygli þeirra sem fylgdust með í sjónvarpi. „Ég var ekkert reiður, ég átti bara í ljómandi fínum samskiptum við dómarann," sagði Hugi léttur í samtali við Fréttablaðið í dag.

Hugi er harður á því að Ísak Örn hafi ekki farið eftir reglum leiksins, sökum þess vildi hann ræða við hann. „Ég hef nú oft dansað á línunni en þarna var ég bara að útskýra fyrir vini mínum honum Ísaki hvernig reglurnar virka. Leikmaður númer 3 hjá KR, hann hleypur inn á völlinn sem varamaður þegar það var dæmd tæknivilla á Brynjar hjá KR. Samkvæmt reglunum átti hann að vísa honum úr húsi. Við í Tindastól lentum í þessu í úrslitum árið 2019. Þá var okkar maður rekinn af velli fyrir sömu hegðun.“

Hugi botnar reyndar ekkert í því því af hverju dómarinn fór að svara honum. „Ég var bara að reyna að rökræða við hann. Hann sem dómari á nú ekkert að vera að svara stuðningsmönnum nema þeir séu dónalegir. Ég var ekki ánægður en ég var ekki dónalegur.“

Leikurinn fór ekki strax af stað enda vildi Ísak láta henda Huga úr húsinu. „Hann vildi láta henda mér út, ég hlýddi því eðlilega ekki neitt. Ég veit ekki til þess að Ísak hafi vald þess til þess að henda fólki úr úr DHL-höllinni.“

Hugi var ánægður með sigurinn. „Þetta var geggjaður sigur, þetta er okkar Keflavík-Njarðvík. Það eru 400 kílómetrar á milli en það er rígur þarna. Ég ber fulla virðingu fyrir KR en Ísak reyndi að flauta bæði lið úr þessum leik.“