Logi Gunnarsson leikur um helgina síðustu landsleiki sína fyrir Íslands hönd þegar karlalandsliðið í körfubolta mætir Finnum og Tékkum í Laugardalshöll.

Með því lýkur 18 ára landsliðsferli sem hófst gegn Noregi í ágúst árið 2000. Þetta verða 146. og 147. landsleikir hans á ferlinum en hann er fjórði leikjahæsti körfuboltamaðurinn í sögu A-landsliðsins.

Átján ár farin að taka sinn toll

Logi, sem verður 37 ára á árinu, er feginn að þurfa ekki að ferðast á milli leikja.

„Ég er feginn að þetta eru tveir heimaleikir í röð því það er ekkert sjálfsagt að lenda í því. Auðvitað vill maður kveðja liðið á góðum nótum, helst með tveimur sigurleikjum, og ég veit að strákarnir munu gefa allt í þetta,“ segir Logi sem segir ákvörðunina ekki auðvelda:

„Það eru margir þættir sem spila inn í þetta, skrokkurinn er farinn að kalla eftir meiri hvíld auk þess sem maður hefur tekið ansi mikinn tíma í þetta. Þetta eru átján ár og körfuboltinn hefur tekið mikið af þeim frítíma sem maður á að fá með fjölskyldunni. Ég finn alveg að allt þetta álag eftir leiki og æfingar er farið að taka sinn toll.“

Tyrkjaleikurinn stendur upp úr

Logi vildi yfirgefa liðið á eigin forsendum frekar en að gera það of seint.

„Mér finnst líka jákvætt að yfirgefa liðið á mínum forsendum, ég tel að ég hafi ennþá eitthvað fram að færa fyrir liðið í stað þess að vera of lengi. Ég hef haldið mér vel við þótt ég hafi verið ansi lengi að,“ en það var ekki erfitt að rifja upp hápunktana.

„Þegar ég lít til baka á báðar ferðirnar okkar á Eurobasket stendur það upp úr, að mæta öllum stærstu þjóðunum í Evrópu en efst á lista situr Tyrkjaleikurinn þar sem maður átti góðan leik og hitti úr eftirminnilegu skoti,“ segir Logi brosandi er hann rifjar upp skotið sem kom Íslandi í framlengingu gegn Tyrkjum á Eurobasket 2015.

Komið að öðrum að taka við

Logi hefur ekki áhyggjur af því að skilja við liðið á þessari stundu en hann á von á að komandi kynslóðir muni ná langt.

„Við erum að fá frábæra kynslóð upp sem maður vill ekki halda aftur af, íslenska landsliðið er í góðum höndum upp á framtíðina að gera með þessa stráka og svo eru enn fleiri að koma upp,“ segir Logi sem segir að það myndi ekki koma á óvart að fleiri leikmenn myndu fylgja honum út úr liðinu eftir þessa keppni:

„Ég held að það sé auðveldara að taka þessa ákvörðun núna, vitandi að næsta kynslóð er tilbúin að taka við verkefninu sem bíður. Það hefur ákveðinn kjarni myndast, Haukur, Hörður, Martin og fleiri sem eru búnir að vera með okkur í þessu síðustu ár og þeir munu leiða þessa ungu áfram. Það styttist í að mennirnir á mínum aldri fari að tínast úr hópnum,“ segir Logi en leikur Íslands og Finnlands hefst klukkan 19.45 í Laugardalshöll í kvöld.