Viktor Gísli Hallgrímsson, markvörður íslenska karlalandsliðsins í handbolta sem og danska liðsins GOG, segist í samtali við TV2 Sport ætla að senda liðsfélaga sínum hjá GOG, Mathias Gidsel, skilaboð og biðla til hans að gera allt sem í sínu valdi stendur til þess að Danmörk vinni Frakkland á morgun.

Örlög Íslands á Evrópumótinu í handbolta ráðast á morgun. Ísland verður að vinna Svartfjallaland og treysta á að Danmörk vinni Frakkland, til þess að komast í undanúrslit.

Það bárust miður skemmtilegar fréttir í morgun þegar að Nicolaj Jacobsen, landsliðsþjálfari Dana, greindi frá því að hann myndi hvíla einhverja leikmenn í leiknum gegn Frakklandi þar sem að Danir eru nú þegar búnir að tryggja sér sæti í undanúrslitum.

,,Við vonumst að sjálfsögðu eftir því að Danmörk muni vinna sinn leik. Ég trúi því að þeir muni gera það og að liðsfélagi minn Gidsel, muni hjálpa til þar," sagði Viktor Gísli í samtali við TV2.

Aðspurður að því hvort hann myndi skrifa skilaboð til Gidsel sagðist Viktor ætla að gera það. ,,Ég ætla að setja smá auka pressu á hann."