Landsliðsmarkvörðurinn Vikt­or Gísli Hall­gríms­son hef­ur skrifað und­ir þriggja ára samn­ing við danska félagið GOG en liðið leikur í dönsku úrvalsdeildinni í handbolta.

Viktor Gísli sem er uppalinn hjá Fram og hefur leikið með meistaraflokki félagsins undanfarin ár verður þar af leiðandi liðsfélagi Óðins Þórs Rík­h­arðsson­ar og Arn­ars Freys Arn­ars­son­ar sem kemur til GOG frá Kristianstad í sum­ar.

Þetta kemur fram í tilkynningu inni á heimasíðu GOG en þar segir Viktor Gísli eftirfarandi um vistaskiptin:.

„Mig langar að verða besti markvörður í heimi þó að ég geri mér grein fyrir því að það sé mikil vinna fram undan til þess að ná því markmiði.Ég tel GOG rétta staðinn til þess að bæta mig sem markmaður. Ég get spilað mjög vel en það sem mig skortir kannski mest er stöðugleiki."

GOG hef­ur sjö sinn­um orðið danskur meistari en liðið vann þann titil síðast árið 2007. Liðið hafnaði í öðru sæti í deild­ar­keppn­inni á yfirstandandi leiktíð og er svo komið í undanúrslitaviðureignina um meistaratitilinn.

Vikt­or Gísli á fjölmarga leiki með yngri landsliðum Íslands en hann lék svo sinn fyrsta mótsleik fyrir A-landsliðið þegar hann varði mark íslenska liðsins á móti Norður-Makedón­íu í leik liðanna Skopje í síðasta mánuði.