Víkingur mætti Kríu í úrslitaeinvígi um sæti í efstu deild í vor þar sem Kría hafði betur.

Kría tók hinsvegar ákvörðun á dögunum um að hætta keppni eftir að ljóst var að lykilleikmenn myndu ekki taka slaginn og að ekkert íþróttafélag var tilbúið að hýsa liðið.

Fyrir vikið hafði HSÍ samband við Víking sem þáði sæti Kríu en í tilkynningu frá HSÍ sem má sjá hér fyrir neðan er Víkingum hrósað fyrir skjót viðbrögð.

Olísdeild karla | Víkingur tekur sæti Kríu

Handknattleikssambandi Íslands barst tilkynning frá hkd. Kríu 20. júlí sl. þar sem tilkynnt var að Kría hafi ákveðið að taka ekki þátt í Íslandsmótinu í handknattleik á næsta keppnistímabili.

Í kjölfar þess hafði skrifstofa HSÍ samband við hkd. Víkings og bauð þeim laust sæti Kríu í Olísdeild karla sem Víkingur hefur nú samþykkt. Víkingur mun því taka sæti Kríu í Olís deild karla nk. tímabil.

Skrifstofa HSÍ vill þakka Víkingum fyrir að bregðast hratt við og samþykkja beiðni um að taka sæti í Olísdeildinni, slíkt er ekki sjálfsagt með stuttum fyrirvara enda verkefnið stórt.