Íslensku liðin sem þurfa að spila útileiki, KR, Breiðablik og Víkingur, þurfa að leigja sér flugvélar því UEFA bannar þeim að ferðast í leikina með farþegaflugi.

„Félögin eru skikkuð til að fara með leiguflugi. Það má ekki fara með almennum flugfélögum þannig að nú þarf að leigja flugvél,“ segir Haraldur Haraldsson, framkvæmdastjóri Víkings. Að sögn Haraldar er málið komið í vinnslu. Hann hafi trú á að hann velji íslenskt. Það geti ekki verið að erlendir aðilar geti boðið betri kjör.

Liðin fá sex milljóna króna styrk frá UEFA ofan á það sem þau fá fyrir þátttökuna.

Í gær var dregið í Evrópukeppninni í fótbolta og drógust Blikar gegn norska liðinu Rosenborg í 2. umferð í Evrópudeildinni en leikið verður ytra. FH mætir Dunajska Streda frá Slóvakíu en FH-ingar fengu heimaleik og hafa því til 27. ágúst til að vona að fótboltaleikir fái að fara fram hér á landi fyrir þann tíma og bikarmeistarar Víkings fara til Slóveníu og mæta Olimpija Ljubljana.

Haraldur Haraldsson, framkvæmdarstjóri Víkings, segir að liðið þurfi að fara með leiguflugi og UEFA styrki félagið að einhverju leyti. „Félögin eru skikkuð til að fara með leiguflugi. Það má ekki fara með almennum flugfélögum þannig að nú þarf að leigja flugvél. Það er komið í vinnslu. Það er fullt af félögum úti í heimi sem hafa haft samband við okkur og það er flugfélag hér á Íslandi sem á nokkrar vélar og áhafnir.“

Hann segir að styrkur UEFA nemi um sex milljónum ofan á það sem félögin fá fyrir þátttöku í Evrópukeppni. „Það er þannig hjá okkur í íþróttafélögum að við fáum ótrúlega mikið af hringingum frá erlendum aðilum sem eru að bjóða fram þjónustu sína. Svo þarf líka að tala við flugfélög hér heima. Það hlýtur að vera að það sé ódýrara. Hinir þurfa að fljúga tómum vélum hingað og sækja okkur og tómum vélum til baka. Maður sér ekki að þeir geti jafnað tilboð íslenskra flugfélaga.“

Fram kom á Vísi í gær að forráðamenn knattspyrnufélaganna sem eiga lið í Evrópukeppnum í fótbolta funduðu með Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, og forráðamönnum KSÍ í gær. Þar átti að reyna að finna lausn til þess að FH geti spilað í Kaplakrika og ákveða hvernig málum verður háttað hjá KR, Breiðabliki og Víkingi R. sem eru öll á leið í útileiki – KR í forkeppni Meistaradeildar. Fram kom að forráðamenn Vals hefðu óskað eftir því að vera gestgjafar í forkeppni Meistaradeildar kvenna, sem á að spila í október.