Víkingur Reykjavík er bikarmeistari karla þriðja tímabilið í röð. Liðið vann FH í framlengdum úrslitaleik á Laugardalsvelli í dag.

Fyrsta marktæka færið kom eftir rúmlega stundarfjórðung. Þá áttu Víkingar hættulega sókn sem lauk með því að Ari Sigurpálsson skaut rétt fram hjá markinu.

Skömmu síðar slapp Pablo Punyed í gegn, en hann náði ekki nægilega miklu valdi á boltanum til að koma honum á markið.

Á 26. mínútu kom Pablo Víkingum hins vegar yfir. Danijel Dejan Djuric átti góðan sprett upp hægri kantinn, renndi boltanum inn á teiginn þar sem Pablo var mættur og rak tána í boltann. Það var nóg til að sigra Atla Gunnar Guðmundsson í marki FH.

Forystan varði þó aðeins í um tvær mínútur áður en Oliver Heiðarsson jafnaði fyrir Hafnfirðinga. Hann fékk frábæra sendingu inn fyrir vörn Víkings frá Davíð Snæ Jóhannssyni.

FH-ingar efldust við þetta og áttu nokkrar álitlegar sóknir í kjölfarið. Liðið komst nálægt því að koma boltanum í netið rétt fyrir hálfleik en allt kom fyrir ekki.

Staðan í hálfleik var, fremur sanngjarnt, 1-1.

Víkingar byrjuðu seinni hálfleik betur. Þeir voru hársbreidd frá því að koma boltanum í netið á fimmtu mínútu hans. Kyle McLagan átti þá hörkuskalla í stöngina.

Við tók kafli þar sem ekki mikið markvert gerðist og liðin tóku ekki miklar áhættur. Víkingur var hins vegar ívið líklegri fram á við.

Helgi Guðjónsson fékk svo dauðafæri til að koma Víkingi yfir á 83. mínútu en skaut fram hjá.

Það áttu svo heldur betur eftir að verða senur á lokamínútum leiksins. Á 89. mínútu kom Nikolaj Hansen Víkingi yfir á nýjan leik eftir að boltinn barst til hans í teignum.

Aftur svaraði FH hins vegar um hæl. Ingvar Jónsson í marki Víkings gerði þá afar klaufalegt sjálfsmark. 

Lokatölur eftir venjulegan leiktíma voru 2-2 og því gripið til framlengingar.

Á fyrstu sekúndum hennar skoraði Hansen aftur með góðum skalla eftir frábæra fyrirgjöf Loga Tómassonar.

FH tókst ekki að ógna marki Víkinga að viti í framlengingunni. Víkingur vann því 3-2 og ver bikarmeistaratitilinn.