Víkingur Reykjavík er bikarmeistari í knattspyrnu karla í annað sinn í sögu félagsins eftir 1-0 sigur á FH í úrslitaleiknum í dag. Með því lýkur 28 ára bið Víkings eftir titli.

Sigur Víkings var verðskuldaður eftir að hafa verið mun sterkari aðilinn gegn liði FH sem virtist ekki vera rétt stillt í leikinn og náði aldrei neinum takti.

Þetta er fyrsti stóri titill Víkings í knattspyrnu síðan liðið varð Íslandsmeistari 1991 og fyrsti bikarmeistaratitill félagsins í 48 ár.

Með því er Víkingur búið að tryggja sér Evrópusæti fyrir næsta ár en FH er enn í tækifæri á að ná Evrópusæti í Pepsi Max-deild karla.

Það var strekkingsvindur í átt að Þróttaraheimilinu í Laugardalnum í dag og nýttu Víkingar sér það í fyrri hálfleik þegar þeir léku með vindi.

FH komst lítt áleiðis og átti varla markverða sókn í fyrri hálfleik. Eina marktilraun FH í fyrri hálfleik kom frá Cedric D´ulivo en Þórður Ingason varði skot hans örugglega.

Á sama tíma voru leikmenn Víkings sífellt að ógna marki FH og voru oft að koma sér í álitlega stöðu en oftast vantaði úrslitasendinguna til að skora markið.

Guðmundur Andri Tryggvason komst næst því að koma Víkingi yfir þegar hann slapp inn fyrir vörn FH undir lok hálfleiksins en Daði Freyr Arnarsson sá við honum.

Leikmenn Víkings stýrðu leiknum frá fyrstu mínútu til loka leiksins.
fréttablaðið/valli

Staðan var því markalaus í hálfleik þrátt fyrir talsverða yfirburði Víkings. FH-ingar náðu litlum takti og virtust ekki vera með hausinn skrúfaðan rétt á því þeir voru mikið í óþarfa brotum.

Í seinni hálfleik var meira jafnvægi í leiknum, FH færði sig framar á völlinn án þess að ógna marki Víkings almennilega. Áfram voru það Víkingar sem voru að fá bestu færin.

Erlingur Agnarsson brenndi af úr dauðafæri um miðbik seinni hálfleiks en stuttu síðar tókst Víkingum að brjóta ísinn. Vítaspyrna var dæmd á Þórð Þorsteinn Þórðarson fyrir hendi innan vítateigs.

Á vítapunktinn steig Óttar Magnús og skoraði þrátt fyrir að Daði Freyr hafi verið boltanum. Stuttu síðar var ákveðinn vendipunktur í leiknum þegar Pétri Viðarssyni var vikið af velli.

Pétur vann boltann af Guðmundi Andra en þegar hann var að snúa við steig hann á bringuna á Guðmundi og vísaði Pétur Guðmundsson, dómari leiksins, nafna sínum af velli.