Víkingur Reykjavík er kominn áfram í þriðju umferð undankeppni Sambandsdeildar UEFA. Þetta var staðfest eftir markalaust jafntefli liðsins gegn The New Saints frá Wales í seinni leik liðanna í kvöld.

Fyrri leiknum lauk með 2-0 sigri Víkings, þar sem Kristall Máni Ingason skoraði bæði mörk liðsins. Íslands- og bikarmeistararnir voru því í góðri stöðu fyrir leik kvöldsins.

Leikur kvöldsins var tíðindalítill og sigur Víkings í einvíginu var í raun aldrei í hættu.

Víkingur mætir að öllum líkindum pólska stórveldinu Lech Poznan í næstu umferð. Liðið er svo gott sem komið áfram í sínu einvígi. Ljóst er að það verður afar krefjandi verkefni.

Þriðja umferðin verður leikin 4. og 11. ágúst.