Boðið var upp á ekta ís­lenskt haust­veður á Víkings­velli í kvöld, vindur og rigning á köflum þegar að dómari leiksins Tomasz Musi­al frá Pól­landi flautaði til leiks.

Leva­dia Tallinn fékk víta­spyrnu strax á fjórðu mínútu eftir barning í teignum þar sem að dómari leiksins taldi að boltinn hefði á endanum farið í höndina á Hall­dóri Smára Björns­syni. Zakaria Beglaris­hvili steig á punktinn fyrir Leva­dia og skoraði af miklu öryggi fram­hjá Þórði Inga­syni í marki Víkinga.

Það tók Víkinga hins vegar ekki langan tíma að jafna. Það gerðist á 10. mínútu. Heima­menn fengu auka­spyrnu utan af velli, Kristall Máni átti flotta spyrnu inn á teig þar sem boltinn rataði á kollinn á Dou­glas Mclagan sem stangaði knöttinn í netið. Staðan orðin 1-1 eftir marka­byrjun á Víkings­velli.

Víkingar héldu pressunni á gestunum eftir markið og voru betri aðilinn á vellinum. Það skilaði sér í öðru marki þeirra á 27. mínútu þegar að Davíð Örn Atla­son átti frá­bæra fyrir­gjöf með jörðinni utan af hægri kanti á Kristal Mána sem lúrði á fjær­stönginni og gerði vel í að koma boltanum í netið.

Heima­menn bættu við þriðja markinu á loka­sekúndum fyrri hálf­leiks. Það gerði Hall­dór Smári Björns­son eftir mis­heppnaða hreinsun mark­varðar Leva­dia. Fleiri mörk voru ekki skoruð í fyrri hálf­leik, Víkingar mun betri aðilinn á vellinum og fóru með verð­skuldaða for­ystu til búnings­her­bergja.

Víkingar byrjuðu af sama krafti í síðari hálfleik, það tók þá aðeins fjórar mínútur að bæta við fjórða marki sínu. Það gerði Nikolaj Hansen eftir frábæran undirbúning Kristals Mána og Pablo Punyed.

Þannig stóðu leikar þar til á 71. mínútu þegar að Helgi Guðjónsson bætti við fimmta marki Víkinga eftir mikinn vandræðagang í vörn Levadia. Helgi hafði komið inn á skömmu áður sem varamaður.

Enn héldu mörkin að koma því að á 77. mínútu bætti Júlíus Magnússon við sjötta marki heimamanna. Það reyndist lokamark leiksins. Víkingar með afar sannfærandi 6-1 sigur á Levadia Tallinn.

Hvað tekur við?

Víkingar mæta Inter Club d´Es­cald­es á Víkings­velli á föstu­daginn í hreinum úr­slita­leik um laust sæti í undan­keppni Meistara­deildar Evrópu. Sigur­vegarinn úr þeirri viður­eign mun mæta sænsku meisturunum Mal­mö undir stjórn fyrrum þjálfara Víkings, Milos Milojevic.

Leva­dia Tallinn hefur hins vegar lokið keppni í Meistara­deild Evrópu þetta tíma­bilið og færist niður í Sam­bands­deildina þar sem liðið mun annað hvort mæta Sham­rock Rovers frá Ír­landi eða Hibernians frá Möltu í annari um­ferð Sam­bands­deildarinnar.