Þungu fargi var létt af Jóni Gunnlaugi Viggóssyni, þjálfara Víkinga með sigri gærkvöldsins og í samtali við Fréttablaðið í dag segir hann mikinn létti fólginn í því að liðið hafi unnið sinn fyrsta sigur á tímabilinu.

,,Það er íþyngjandi að tapa leikjum og kannski vera spila vel en fá ekkert út úr leikjunum. Það er eitt að taka slaginn í efstu deild vitandi það að okkur er kannski ekki spáð neitt glimrandi gengi en svo er það annað að takast á við að vera í hringiðu stormsins, þurfa að bregðast við, breyta og bæta. Þetta er stanslaus vinna."

Fyrir leik höfðu Víkingar tapað níu leikjum í röð á tímabilinu og HK átta. Það fór svo að Víkingar höfðu betur, unnu tveggja marka sigur og bundu enda á taphrinu sína í efstu deild.

Víkingar tóku að sér sæti í efstu deild fyrir yfirstandandi tímabil eftir að tilkynnt var um að Kría frá Seltjarnarnesi myndi ekki taka sæti í deildinni.

,,Úrslit eru það eina sem er skoðað í okkar bransa. Ég vissi alveg út í hvað ég væri að fara með þetta lið og við tókum sameiginlega ákvörðun á sínum tíma, bæði stjórn og leikmenn að taka slaginn í deildinni með stuttum fyrirvara þó svo að þetta hafi legið í loftinu. Það var lítill tími fyrir okkur til þess að skoða einhverja frekari styrkingu fyrir tímabilið og við ákváðum að lokum að veðja á þá leikmenn sem við vorum með til staðar. Þeir hafa margir hverjir komið mjög á óvart og staðið sig gríðarlega vel," sagði Jón Gunnlaugur, þjálfari Víkings R. í samtali við Fréttablaðið í dag.

Jón Gunnlaugur segir að þó maður viti að verkefnið fram undan sé erfitt sé allt annað að takast á við það. ,,Ég er rosalega ánægður og stoltur að hafa tekið fyrsta sigurinn núna. Við erum að uppskera núna eftir mjög erfiða vinnu undanfarnar vikur."

„Fyrir það fyrsta þá eru hin liðin ekki að mæta stigalausum Víkingum lengur“

Sigur Víkinga í gær bindur enda á nítján leikja taphrinu karlaliðs félagsins í efstu deild. Fyrir sigur gærkvöldsins kom síðast i sigur Víkinga í efstu deild þann 30. nóvember árið 2017 þegar að liðið hafði betur gegn Fjölni.

,,Við höfum ekkert spáð í þessari tölfræði. Við áttum frábært tímabil í næst efstu deild í fyrra þar sem að okkur var spáð 7. sæti. Eitthvað sem við vorum að gera var að virka vel og það var í raun kveikjan að því að við þáðum sæti í Olís deildinni þegar að okkur bauðst það. Núna er fyrsti sigurinn kominn og þá reynum við að taka tvö sigra í röð með sigri í næsta leik."

En hvað gerir þessi sigur fyrir leikmannahóp Víkinga í framhaldinu?

,,Fyrir það fyrsta þá eru hin liðin ekki að mæta stigalausum Víkingum lengur. Þetta er stór hnútur sem við vorum að höggva á og með þessu kemur gríðarlegur kraftur og ákveðin trú hjá leikmönnunum sjálfum og okkur að við getum þetta. Þetta breytir öllu andrúmslofti og skiptir okkur öllu máli.

Jón Gunnlaugur segir það markmiðið hjá Víkingum að halda sæti sínu í deildinni. ,,Við ætlum að gera allt til þess að það verði að veruleika. Við erum hins vegar á þeim stað að við getum ekki leyft okkur að horfa lengra en bara á næsta leik. Ég er ekki í nokkrum vafa um að möguleikinn er fyrir hendi. Það er allt undir hjá okkur og við verðum að spila þannig," sagði Jón Gunnlaugur Viggósson, þjálfari karlaliðs Víkings R. í handbolta í samtali við Fréttablaðið.