Norska úrvalsdeildarliðið í fótbolta, Viking Stavanger, hefur fest kaup á landsliðsmarkverðinum Patrik Sigurði Gunnarssyni.

Þetta kemur fram í færslu á twitter-reikningi Viking Stavanger en Patrik Sigurður lék sem lánsmaður með liðinu, alls átta leiki í deild og bikar á seinni hluta síðasta keppnistímabils.

Patrik Sigurður gekk til liðs við Brentford frá uppeldisfélagi sínu, Breiðablik, árið 2018 en hann spilaði einn leik fyrir aðallið félagsins.

Þessi 21 árs gamli leikmaður var lánaður til Southend United, Viborg, Silkeborg og Viking á meðan hann var á mála hjá Brentford.

Patrik Sigurður, sem á enn eftir að spila A-landsleik, var valinn í leikmannahóp íslenska liðsins gegn Úganda og Suður-Kóru sem spilaðir voru í Belek í Tyrklandi á miðvikudaginn og sunnudaginn en gat ekki tekið þátt í þeim verkefnum vegna meiðsla.

Viking Stavanger hafnaði í þriðja sæti norsku úrvalsdeildarinnar á síðustu leiktíð og tryggði sér þar af leiðandi þátttökurétt í Sambandsdeild Evrópu á næsta tímabili.