Víðir Reynisson minnti knattspyrnufólk á að sýna samfélagslega ábyrgð á upplýsingafundi í gær. „Það er verið að veita íþróttamönnum heimild til að stunda sína íþrótt. Þetta er heimild sem er meiri en við höfum og þetta er ábyrgð sem menn verða að sýna,“ sagði Víðir.

Töluvert hefur verið rætt og ritað um reglur sem íþróttamenn þurfa að fara eftir en þeir þurfa, eins og þjálfarar, dómarar og aðrir starfsmenn liða, að lágmarka samskipti við aðra og forðast fjölmenna staði eins og verslanir, veitingastaði, bíó og skemmtistaði, líkt og annað framlínufólk. Önnur sérsambönd munu trúlega einnig þurfa að fara eftir þessum reglum. Skyldur leikmanna eru orðnar töluverðar. Á æfingum þarf að bera grímu en samt ekki meðan á æfingunni stendur. Sótthreinsa þarf allan búnað í líkamsræktaraðstöðu félaganna og alltaf halda tveggja metra reglunni þar inni. Leikmenn mega ekki deila vatnsbrúsa og á liðsfundum skal notast við andlitsgrímur. Þá má ekki fara í viðtöl við fjölmiðla aðra en sjónvarpsrétthafa nema með fjartækni.

Eftir leiki er ekki lengur matur í boði heimaliðsins heldur þurfa leikmenn sem og aðrir að koma með mat í lokuðum ílátum. Á leikdag þarf helst að koma á sínum einkabíl. Skylda er að vera með grímu í búningsklefa á leikdag og ekki vera inni í klefanum lengur en 30-40 mínútur fyrir og eftir leiki. Engar liðsmyndir eru lengur leyfðar, liðin ganga sitt í hvoru lagi og er bannað að heilsa og óheimilt er að fagna mörkum nema með brosinu einu saman. Alls ekki með snertingu. Þá er bannað að hrækja og markmenn fá ekki að hrækja í hanskana sína. Þá þakka leikmenn ekki fyrir leikinn og takast ekki í hendur eftir leiki.