Viggó Kristjánsson og Bjarki Már Elísson eru tveir markahæstu leikmenn þýsku efstu deildarinnar í handbolta karla.

Viggó var markahæsti leikmaður Stuttgart með sjö mörk þegar liðið lagði Leipzig að velli 30-24 í sjöttu umferð deildarinnar í kvöld. Stuttgart er öllum að óvörum á toppi deildarinnar með níu stig.

Bjarki Már Elísson var sömuleiðis markahæstur í liði Lemgo með sín sjö mörk í 28-28 jafntefli liðsins gegn Göppingen. Janus Daði Smárason skoraði þrjú marka Göppingen í leiknum.

Lemgo hefur átta stig líkt og Alexander Petersson, Ýmir Örn Gíslason og félagar þeirra hjá Rhein-Neckar Löwen, Flensburg og Kiel.

Viggó er nú markahæsti leikmaður deildarinnar með 44 mörk og Bjarki Már kemur næstur á þeim lista með 42 mörk.