Tveir af fjórum markahæstu leikmönnum þýsku efstu deildarinnar í handbolta karla eru íslenskir leikmenn en það eru Viggó Kristjánsson sem er á sínu fyrsta keppnistímabili með Stuttgart og Bjarki Már Elísson sem leikur með Lemgo.

Viggó Kristjánsson er næstmakahæsti leikmaður þýsku efstu deildarinnar í handbolta karla með 23 mörk í fyrstu þremur umferðum deildarinnar en tíu þeirra komu í sigri gegn Balingen um síðustu helgi. Bjarki Már sem er í fjórða sæti á listanum með 21 mark er að halda uppteknum hætti frá síðasta keppnistímabili þar sem hann varð markahæsti leikmaður deildarinnar.

Fyrir þessa leiktíð gekk Viggó til liðs við Stuttgart frá Wetzlar í sumar en með liðinu leikur einnig Mosfellingurinn Elvar Ásgeirsson. Stuttgart hefur farið vel af stað í deildinni í vetur en liðið hefur fjögur stig í tíunda sæti eftir tvo sigra í fyrstu þremur leikjunum.

„Það var mjög góð tilfinning þegar deildin fór af stað eftir óvenjulega langt undirbúningstímabil. Það er enn sérstök stemming í gangi út af kórónarveirunni og til að mynda geta einungis 500 mætt á heimavöllinn okkar sem er höll sem tekur 6000 manns. Við erum testaðir tveimur dögum fyrir hvern leik og þurfum að vera með gríma fyrir og eftir æfingar.

Okkur var spáð svona um miðja deild fyrir keppnistímabilið og fyrsta markmið hjá okkur er að halda sæti okkar í deildinni. Það falla fjögur lið úr deildinni á þessari leiktíð og við stefnum að því að sogast ekki í fallbaráttu heldur sigla lygnan sjó,“ segir Viggó um upphaf tímabilsins og markmið Stuttgart í vetur.

„Hlutverk mitt stækkaði með hverjum leik á undirbúningstímabilinu og ég var farinn að spila bæði á miðjunni og í hægri skyttunni, velja í yfirtölu og skjóta meira á markið fyrir utan en ég hef gert áður á ferlinum. Við komum tveir í hægri skyttustöðuna til Stuttgart í sumar og margir töldu að sá sem kom með mér myndi spila meira en ég. Ég er að berjast um að spila í hægri skyttunni við góðan leikmann og því er mikil samkeppni um stöðuna.

Það er því gott að hafa byrjað svona vel til þess að tryggja mér fleiri mínútur inni á vellinum. Mér fannst ég hafa bætt skotógn í vopnabúrið mitt á þeim mánuðum sem ég hef verið hér. Bæði hef ég bætt skottæknina og svo fengið meira sjálfstraust til þess að skjóta,“ segir Seltirningurinn um fyrstu mánuðina hjá nýja liðinu.

„Í leiknum gegn Balingen um helgina skoraði ég til að mynda meirihlutann af mörkunum mínum með skotum fyrir utan. Það er erfitt að finta sig sífellt í gegnum varnirnar í þýsku efstu deildinni og því nauðsynlegt að geta ógnað með skotum af lengra færi. Ég skoraði í fyrstu sókninni á móti Balingen og fann það fljótlega að ég var heitur og ákvað bara að nýta mér það.

Leikir Stuttgart og Balingen eru hálfgerðir grannaslagir og svo er þetta lið sem spáð er að verði á svipuðum slóðum og við á tímabilinu. Það var því mjög kærkomið að næla í tvö stig. Vonandi held ég og liðið áfram á sömu braut og veturinn verður skemmtilegur,“ segir þessi öfluga skytta um stórleik sinn gegn Balingen og framhaldið.