Viggó Kristjánsson, landsliðsmaður í handbolta og leikmaður þýska liðsins Stuttgart braut bein í þumalfingri vinstri handar fyrr í þessari viku. Þetta kemur fram í frétt á heimasíðu Stuttgart.

Þar segir að Viggó, sem er örvhentur, verði fjarri góðu gamni vegna þessara meiðsla næstu átta vikurnar um það bil.

Viggó varð fimmti markahæsti leikmaður þýsku efstu deildarinnar á síðustu leiktíð. Skyttan var ekki með Stuttgart þegar liðið laut í lægra haldi fyrir Magdeburg.

Ómar Ingi Magnússon skoraði níu mörk fyrir Magdeburg í þeim leik en Gísli Þorgeir Kristjánsson, samherji Ómars Inga, er að koma til baka eftir axlarmeiðsli.