Patrick Vieira, fyrrverandi fyrirliði Arsenal og leikmaður franska karlalandsliðsins í knattspyrnu, mun hætta störfum hjá New York City og hefja störf sem knattspyrnustjóri Nice á næstu dögum ef marka má frétt The Times.

Vieira gerði sér vonir um það að taka við gamla stjóra sínum, Arsene Wenger, sem hvarf af braut frá Arsenal í vor. Forráðamenn Arsenal ákváðu hins vegar að leita til Unay Emery sem stýrði síðast PSG. 

NIce hafnaði í áttunda sæti deildarinnar á síðustu leiktíð, en liðið hefur metnað til þess að tryggja sér þátttökurétt í Evrópudeildinni á næstu leiktíð og á Vieira að stýra liðinu þangað. 

Vieira hóf þjálfaraferil sinn sem þjálfari U-23 ára liðs Manchester City, en hann tók síðan við New York City og liðið hafnaði í öðru sæti á nýliðinni leiktíð.