Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn segir ljóst að íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu hafi ekki fylgt sóttvarnartilmælum eftir leik Íslands við Rúmeníu í síðustu viku.

Þetta kom fram í máli hans á upplýsingafundi í dag. Vísar hann þar til ljósmyndar af fögnuði Þorgríms Þráinssonar og fyrirliðans Aron Gunnarssonar eftir leikinn sem birtist í Fréttablaðinu.

„Út frá þeim reglum sem knattspyrnusambandið hafði kynnt okkur og þær undanþágur varðandi sóttkví og framkvæmd leiksins sem KSÍ fékk með svokallaðri vinnusóttkví var okkar skilningur að leitast ætti við að ekki væri blöndunni á milli hópa og hólfa við framkvæmd leikja og þegar slíkt væri nauðsynlegt var sérstaklega gætt að sóttvörnum.“

„Á þeirri mynd sem birtist með fréttunum er slíku ekki fylgt og þetta eru fyrst og fremst vonbrigði,“ bætti Víðir við.

Fréttablaðið greindi frá því í dag að Þorgrímur Þráinsson, sem smitaðist af COVID-19 og setti tólf starfsmenn KSÍ í sóttkví, hafi hvorki verið á leikskýrslu gegn Rúmenum né Dönum.

Þá sé starfsmönnum landsliðsins og leikmönnum ekki heimilt að knúsast og faðmast eftir leiki samkvæmt reglum UEFA og íslenskum reglum sem KSÍ vinnur eftir.

Samkvæmt reglum UEFA, sem kallast UEFA Return to Play Protocol v2, á að hafa algjöran aðskilnað milli leikmanna og starfsmanna, hvort sem það er í matmálstímum eða ferðalögum til og frá æfingum.

Fréttin hefur verið uppfærð.