Viðar Halldórsson, formaður FH, hefur svarað gagnrýni Rósu Guðbjartsdóttur, bæjarstjóra Hafnarfjarðar, á sig vegna opins bréfs sem hann sendi bæjaryfirvöldum þar vegna byggingu nýs knatthúss Hauka.

Viðar sendi bréfið á miðvikudag. Þar sagði hann framkvæmdina við hús Hauka allt of dýra og að hann myndi óska eftir að Hafnarfjörður kaupi eignarhlut FH í mannvirkjum sínum í staðinn.

Rósa sagði í svari við fyrirspurn Fréttablaðsins í gær að gagnrýni Viðars á byggingu hússins væri af og frá. Jafnframt sagði hún að hann færi frjálslega með peningaupphæðir í bréfinu, en hann hafði sett slíkar fram máli sínu til stuðnings.

Viðar hefur nú sent frá sér annað bréf sem svar við fyrirspurn Fréttablaðsins til hans.

„Bréf mitt til bæjarfulltrúa í Hafnarfirði hefur vakið athygli margra og umfjöllun. Skrif um innihald þess birst víða. Skrif mín eru bæði mín persónulega skoðun, framkvæmdastjórnar félagsins og aðalstjórnar þess,“ segir Viðar.

Viðar segist alls ekki vera að beita sér fyrir bættri aðstöðu á Ásvöllum, heldur vilji hann að svæðið sé byggt upp á hagkvæmari hátt en áætlanir segja til um.

„Gagnrýni bæjarstjórans í Hafnarfirði á mig persónulega er algörlega vísað á bug, bæði varðandi það að ég sem formaður Fimleikafélagsins sé á móti og hafi ávallt verið á móti aðstöðusköpun á Ásvöllum. Þetta er rangt, ég hef nú í nokkur ár, bæði í samtölum við forráðamenn Hauka og ráðandi aðila hjá Hafnarfjarðarbæ talað fyrir bættri aðstöðu á Ásvöllum, byggða á skynsaman og hagkvæman hátt. Forgangsröðun íþróttamannvirkja hefur verið til umræðu innan stjórnar ÍBH í áratugi og hefur undirritaður sem stjórnarmaður þar stutt og staðið að “forgangsröðunarlista” sem inniheldur knatthús á Ásvöllum.

Gagnrýnin er einfaldlega byggð á þeirri staðreynd að fyrirhuguð framkvæmd er allt of kostnaðarsöm bæði í stofnkostnaði og ekki síður rekstrar- og fjármagnskostnaði. Ásökunum um frjálslega talnameðferð get ég alveg tekið til skoðunar en framkvæmdakostnað upp á 4,5 milljarða byggði ég einfaldlega á því að tilboðsverð fyrsta áfanga er 3,4 milljarðar, hönnun er nú þegar komin yfir 100 milljónir, áætla að verði 150 milljónir. Áætlaður kostnaður annars áfanga 400 milljónir, framkvæmdaeftirlit 150 milljónir, samtals er þetta 4,1 milljarður og þá er allur kostnaður vegna aukaverka ótalinn. Reynslutölur sveitafélaga varðandi aukaverk liggja á bilinu 5-20 prósent af útboðsverðum og áætlaði ég tíu prósent þ.e. ca. 400 milljónir til viðbótar. Hvort sem við notum 4 eða 4,5 milljarða, framkvæmdin er óhóflega dýr, einfaldlega bruðl með opinbera fjármuni. Niðurstaða áætlunar um rekstrar- og fjármagnskostnað verður alltaf 300 milljónir, plús eða mínus, ef fólk hefur áhuga á að vinna í rauntölum.“

Rósa sagði í svari sínu við fyrirspurn Viðars í gær að Haukar afsali sér hluta í­þrótta­svæðis síns, til fjár­mögnunar hússins, og fékk bærinn 1300 milljónir króna upp í húsið með sölu þeirra lóða, eða um þre­falt hærri upp­hæð en á­ætlanir höfðu gert ráð fyrir. Viðar segir málið ekki svo einfalt.

„Allt tal um lægri byggingakostnað vegna “lóðarframlags” Haukanna er í mínum huga talnaleikfimi og breytir engu um raunkostnað knatthússins á Ásvöllum. Kaplakriki og Ásvellir eru leigulóðir, lóðunum var úhlutað til félaganna fyrir áratugum og á þeim tíma var stærð lóðanna í samræmi við áætlaða þörf. Gervigrasið kom síðar til sögunnar og þá minnkaði lóðarþörfin.“

Sem fyrr segir vill Viðar að fari verði önnur leið en áætlanir segja til um. Hann telur aðra lausn liggja augum uppi.

„Hvað er til ráða? Það þarf að bæta aðstöðuna á Ásvöllum. Í mínum huga er lausnin nokkuð einföld, afskrifum núverandi hönnun, betrumbætum hönnun Skessunar þ.e. lengjum hana í 120 metra og byggjum fljótt og vel. 1,3 milljarðar í stofnkostnað og rekstrar og fjármagnskostnaður ca. 100 milljónir á ári.“

Viðar ítrekar hversu vel Skessan, sem er yfirbyggt óupphitað knatthús í fullri stærð, hefur reynst FH.

„Skessan er, eins og allir vita kalt knatthús sem bæði hefur kosti og galla. Stærsti kosturinn í samanburði við upphituð knatthús er vitanlega verulega lægri stofnkostnaður og þá um leið verulega lægri rekstrar- og fjármagnskostnaður. Ókosturinn er sá að það koma kaldir dagar í nóvember til febrúar, þó hefur ekki þurft að fella niður æfingar þessa mánuði í þau þrjú ár sem Skessan hefur verið í notkun. Á móti kemur er Skessan betra mannvirki til fótboltaiðkunar hina átta mánuði ársins, loftgæðin eru betri og dagsbirtu nýtur við. Skessan er og verður virk sem fótboltahús 365 daga ársins.“