Viðar Örn Kjartansson, landsliðsmaður í fótbolta, er með brákað bein í fæti og verður fjarri góðu gamni næstu sex vikurnar um það bil vegna þeirra meiðsla.

Það er fotbolti.net sem greinir frá þessu.

Viðar Örn var valinn í leikmannahóp íslenska landsliðsins sem mætti Mexíkó um síðustu helgi, mætir Færeyjum á föstudagsvköldið kemur og svo Póllandi 8. júní.

Þessi 31 árs sóknarmaður fer í aðgerð á morgun vegna meiðslanna en hann hefur skorað eitt mark og gefið eina stoðsendingu í fimm leikjum fyrir Vålerenga í norsku úrvalsdeildinni á yfirstandandi leiktíð.