Viðar Örn Kjartansson var í dag kynntur sem leikmaður Hammarby í Svíþjóð en þangað kemur hann á láni frá rússneska félaginu Rostov fram á sumarið.

Selfyssingurinn snýr því aftur í Allsvenskan eftir að hafa rétt misst af gullskónum sem leikmaður Malmö árið 2016.

Viðar samdi við Rostov síðasta haust en tókst aldrei að vinna sér sæti í byrjunarliði rússneska félagsins sem var tilbúið að leyfa honum að yfirgefa félagið.

Það voru fjölmörg lið sem sýndu Viðari áhuga en hann kaus að semja við Hammarby sem rétt missti af sæti í Evrópukeppninni á síðasta ári eftir að hafa byrjað tímabilið í titilbaráttu.

Hann hefur áður leikið fyrir Maccabi Tel Aviv, Malmö, Jiangsu Sainty og Valerenga á atvinnumannaferlinum.