Viðar Örn Kjartansson framherji Hammarby skoraði eitt marka liðsins sem vann 4-0 sigur gegn Östersund í níundu umferð sænsku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu karla í kvöld.

Viðar Örn skoraði annað mark liðsins á 12. mínútu leiksins en hann hefur nú skorað fimm mörk í deildinni á yfirstandandi leiktíð og er þriðji markahæsti leikmaður deildarinnar.

Hammarby og Malmö eru jöfn að stigum með 17 stig á toppi deildarinnar en Arnór Ingvi Traustason og samherjar hans hjá Malmö eiga leik til góða á Hammarby.

Viðar kom til Hammarby frá rússneska liðinu Rostov á fimm mánaða lánssamningi í mars fyrr á þessu ári.