Selfyssingurinn Viðar Örn Kjartansson er á förum frá rússneska félaginu Rostov eftir stutt stopp samkvæmt heimildum Fotbolti.net í dag.

Viðar var keyptur til Rússlands frá Maccabi Tel Aviv síðasta sumar en honum hefur aldrei tekist að festa sig í sessi hjá Rostov.

Hann hefur aðeins byrjað einn leik og komið við sögu í átta leikjum og fengið 187. mínútur í deildinni án þess að komast á blað.

Samkvæmt heimildum Fotbolti.net verður Viðar lánaður frá Rússlandi og hefur hann verið orðaður við lið í Tyrklandi, Bandaríkjunum og í Skandinavíu.

Sænskir miðlar fullyrða í dag að Djurgarden hafi haft samband við umboðsmenn Viðars um möguleg félagsskipti.

Viðar lék í hálft tímabil með Malmö þar sem hann varð sænskur meistari með Malmö og var hársbreidd frá því að vera markahæstur í deildinni.