Hörðustu stuðningsmenn ítalska knattspyrnufélagsins Inter Milan, Inter Ultras hafa gefið út yfirlýsingu þar sem meðlimir hópsins sem og aðrir stuðningsmenn Inter Milan eru beðnir um að taka ekki á móti Romelu Lukaku ef hann snýr aftur til félagsins.
Búist er við því að belgíski framherjinn Romelu Lukaku, leikmaður Chelsea fari í læknisskoðun í næstu viku áður en hann snýr aftur til Inter Milan en nýjustu fregnir herma að Inter og Chelsea hafi komist að samkomulagi um að leikmaðurinn fari á láni til Inter.
Inter Ultras segja að þessi 29 ára gamli leikmaður verði að ávinna sér virðingu sína á ný hjá félaginu innan vallar en Lukaku fór til Chelsea frá Inter Milan fyrir síðasta tímabil.
Í yfirlýsingu sem Inter Ultras sendi frá sér segir:
Þar sem endurkoma Lukaku til Inter er mjög líkleg þarf að koma nokkrum hlutum á hreint. Við styðjum Inter Milan og munum ekki mótmæla félagsskiptum leikmannsins (þrátt fyrir hegðun hans síðasta sumar). Sem sagt, það mun enginn frá okkur fara og taka á móti honum ef hann snýr aftur til Mílanó. Hann mun þurfa að vinna sér inn alla virðingu á ný með auðmýkt sem og svita innan vallar.
Við komum fram við hann eins og kóng á sínum tíma, nú er hann bara leikmaður eins og margir aðrir. Það skal hins vegar vera öllum ljóst að við munum ekki vinna gegn Lukaku ef hann klæðist Inter treyjunni aftur. Við hvetjum hins vegar alla stuðningsmenn Inter að falla ekki í þá gryfju að fara hlaupa og slefa á eftir honum.
Það að láta eins og ekkert hafi í skorist myndi bara láta okkur líta illa út. Við tókum eftir svikum Lukaku og vorum gríðarlega vonsviknir. Með tímanum getum við jafnvel fyrirgefið fótboltamanni slíkt, en staðreyndirnar munu ekki breytast. Nú Romelu, skulum við sparka og hlaupa,“ segir í yfirlýsingu frá Inter Ultras.
Fyrir tæpu ári síðan gekk framherjinn Romelu Lukaku á ný til liðs við enska úrvalsdeildarfélagið Chelsea. Kaupverðið var talið vera 98 milljónir punda en Lukaku hafði verið á mála hjá Inter Milan frá því í ágúst árið 2019. Hann skildi eftir sig sviðna jörð í Mílanó, stuðningsmenn sögðu hann svikara.
Lukaku hafði áður verið á mála hjá Chelsea á árunum 2011-2014 og miklar vonir voru bundnar við endurkomu hans á Stamford Bridge. Hann hafði slegið í gegn hjá Inter Milan áður, skorað 64 mörk í 95 leikjum og hjálpað liðinu að vera ítalskur meistari tímabilið 2020/21.Hann fór vel af stað í endurkomunni, skoraði 3 mörk í fyrstu þremur leikjum sínum í ensku úrvalsdeildinni og allt leit út fyrir að Chelsea væri búið að finna sinn mann í fremstu víglínu. Það tók hins vegar fljótt að halla undan fæti hjá Lukaku og meiðsli undir lok októbermánaðar settu stein í götu hans hjá félaginu.
Lukaku vann sig úr meiðslunum enn undir lok síðasta árs birtist afar umdeilt viðtal við hann þar sem hann ýjaði að því að vilja endurnýja kynni sín við Inter Milan. Þetta sagði hann aðeins fjórum mánuðum eftir að hafa verið keyptur á tæpar 100 milljónir punda til Chelsea og skrifað undir fimm ára samning við félagið.
Nú virðist hann vera á leið aftur til Inter Milan. Þar er alveg greinilegt að hann mun ekki lifa á fornri frægð.