Að­eins 0.1 stig skildi að lið Ís­lands og Sví­þjóðar í stúlkna­flokki á Evrópu­meistara­mótinu í hóp­fim­leikum í kvöld. Ís­lenska stúlkna­liðið fékk 54.200 stig og það sænska 54.300 stig.

Lands­liðs­konan, Telma Ösp Jóns­dóttir, bar höfuðið hins vegar hátt eftir að niðurstaðn var ljós enda áttu stúlkurnar frá­bært mót.

„Við hefðum ekki getað gert þetta betur. Þótt þetta hafi verið tæpt erum við ó­trú­lega á­nægðar með hvar við enduðum,“ segir Telma í sam­tali við Frétta­blaðið.

Stúlkurnar eftir trampólín æfingar kvöldsins.
Ljósmynd/Stefán Pálsson

Stúlkna­liðið hækkaði sig all­veru­lega úr undan­keppninni en þar fékk liðið 50.275 stig. Smá­vægi­legar breytingar sem lands­liðs­þjálfarar liðsins gerðu fyrir úr­slitin skiluðu miklum árangri en þeir drógu úr erfið­leikanum og hækkuðu þannig fram­kvæmda­r­ein­kunn liðsins.

„Við bættum okkur fá­rán­lega mikið frá undan­úr­slitunum og lentum allt. Það voru þrjá­tíu og sex lendingar í dag,“ segir Telma en stúlkna­liðið fór í gegnum allt mótið án falls.

Lokaumferð stúlknanna á dýnu er aðgengileg hér að neðan og fögnuðu stúlkurnar ákaft eftir að síðasta stúlkan lenti.

Úr­slit hjá blandaða ung­linga­lands­liði Ís­lands hefst núna klukkan 18:30 og er hægt að horfa á úr­slitin hér að neðan.