Á­kvörðun í máli knatt­spyrnu­mannsins Gylfa Þórs Sigurðs­sonar var að vænta í dag en um helgina var greint frá því að hann yrði á­fram laus gegn tryggingu til 19. janúar.

Frétta­blaðið hafði sam­band við lög­regluna í Manchester um tvö­leytið og þá var ekki enn búið að taka á­kvörðun um á­kæru.

„Það er ekkert að frétta okkar megin þar sem við erum enn að bíða eftir upp­lýsingum sjálf," sagði Kate King, fjöl­miðla­full­trúi lög­reglunnar í Manchester í samtali við Fréttablaðið.

„Við erum enn að bíða eftir dóm­stólnum. Við höfum ekki enn heyrt neitt frá þeim,“ bætti hún við.

Þá er rétt að taka fram að enn er verið að ákveða hvort Gylfi verður ákærður en ekki er verið að bíða eftir niðurstöðu dómstóla í málinu sjálfu.

Gylfi var hand­tekinn á heimili sínu í Bret­landi 16. júlí síðast­liðinn, grunaður um brot gegn ó­lög­ráða ein­stak­lingi.

Hann var látinn laus gegn tryggingu en það fyrir­komu­lag hefur verið fram­lengt í þrí­gang nú síðast um ný­liðna helgi.

Lög­reglan í Manchester hefur ekki viljað tjá sig um málið við Frétta­blaðið að öðru leyti en að niður­stöðu væri að vænta í dag.

Eins og Frétta­blaðið hefur greint hefur Gylfi verið bú­settur í London síðustu mánuði. Gylfi hefur vegna málsins ekkert spilað með E­ver­ton á nú­verandi tíma­bili og er ó­lík­legt að hann spili aftur fyrir fé­lagið.