Maccabi Tel-Aviv hefur selt Viðar Örn Kjartansson til Rostov í Rússlandi. Þrír Íslendingar eru fyrir í herbúðum Rostov: Ragnar Sigurðsson, Sverrir Ingi Ingason og Björn Bergmann Sigurðarson.

Viðar lék með Maccabi Tel Aviv í tvö ár. Hann varð markakóngur ísraelsku úrvalsdeildarinnar á þarsíðasta tímabili.

Viðar varð markakóngur norsku úrvalsdeildarinnar með Vålerenga 2014 og næstmarkahæstur í þeirri sænsku 2016 þegar hann var leikmaður Malmö. 

Árið 2015 lék Viðar með Jiangsu Sainty og varð kínverskur bikarmeistari með liðinu. Hér heima lék hann með Selfossi, ÍBV og Fylki.

Selfyssingurinn er í íslenska landsliðshópnum sem mætir Sviss og Belgíu í Þjóðadeildinni í næsta mánuði. Hann hefur leikið 18 landsleiki og skorað tvö mörk.