Sebastian Vettel, fjórfaldur heimsmeistari ökumanna í Formúlu 1, segir að loftslagsbreytingar hefðu orðið til þess að hann efaðist um starf sitt sem ökumaður Formúlu 1, mótaraðar sem ferðast um heiminn með keppnisbíla.

Hann var spurður að því í þætti á vegum BBC hvort afstaða hans til umhverfismálagerði hann að hræsnara sökum þess að hann er hluti af íþrótt sem skilur eftir sig drjúgt kolefnisspor.

,,Það gerir það, þetta er rétt hjá þér," sagði Vettel hlægjandi og viðurkenndi að hann spyrði sig spurninga tengt þessu reglulega. ,,Ég er ekki dýrlingur."

Hann segir einfaldlega að sumar ákvarðanir séu úr hans höndum. ,,Það er ástríða mín að aka bíl, ég elska það í hvert skipti. En þegar að ég stíg út úr bílnum hugsa ég auðvitað með mér hvort við ættum að vera að þessu. Ferðast um heiminn og sóa auðlindum."

Formúla 1 er að reyna taka skref í sjálbærari átt. ,,Það eru ákveðnir hlutir sem ég geri vegna þess að ég tel mig geta gert þá betur. Þarf ég að ferðast í flugvél í hvert einasta skipti milli staða? Nei, ekki þegar að ég get ferðast með bíl."

Formúla 1 stefnir að því að skilja ekkert kolefnisspor eftir sig árið 2030, með 100% sjálfbæru eldsneyti frá 2026 þegar ný vél verður kynnt.