Sturla Snær Snorrason, keppandi í alpagreinum á Vetrarólympíuleikunum í Peking, hefur greinst jákvæður með COVID-19. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem send var á fjölmiðla fyrir stundu.

Þar segir jafnframt að allir þátttakendur fari daglega í PCR-Próf og er fylgst mjög vel með öllum sem koma að leikunum. Sturla Snær fór eins og aðrir íslensku þátttakendurnir í PCR-próf í morgun, en fann fyrir einkennum á æfingu og ákvað að halda sig til hlés og fara jafnframt í annað PCR-próf.

Sturla er skráður til keppni í tveimur greinum á leikunum, keppni í stórsvigi þann 13. febrúar og í svigi miðvikudaginn 16. febrúar.

Andri Stefánsson, fararstjóri hópsins, sem skrifaður er fyrir tilkynningunni, metur líklegt að Sturla Snær nái að keppa á leikunum.