Það var í byrjun nóvember árið 2006 sem Njarðvíkingurinn Óskar Örn Hauksson gekk til liðs við KR. Þessi snaggaralegi kantmaður lék svo sinn fyrsta deildarleik með KR-ingum sumarið 2007.

Nú, rúmum 14 árum og 18 titlum síðar, hefur Óskar Örn kvatt Vesturbæinn og ætlar að taka slaginn með Stjörnunni.

Á þessum 14 árum hefur þessi magnaði fótboltamaður oft fengið boð frá öðrum félögum og næst var hann líklegast að venda kvæði sínu í kross árið 2014 en Bjarni Eggerts Guðjónsson náði að sannfæra hann um að fara ekki í FH á þeim tíma.

Árið 2012 lék hann sem lánsmaður hjá norska liðinu Sandnes Ulf og 2015 hjá Edmonton í Kanada. Þess utan hefur þessi 37 ára leikmaður haldið tryggð við Vesturbæjarfélagið.

Í síðasta leik sínum í KR-búningnum, í bili hið minnsta, skoraði hann eitt mark og lagði upp annað í 2-0 sigri á sínum nýja heimavelli í Garðabænum, en með þeim sigri tryggði KR sér sæti í Sambandsdeildinni á næsta keppnistímabili.

Sumarið 2020, sem fer í sögubækurnar vegna blessaðrar kórónaveirunnar, verður þegar fram í sækir eftirminnilegt fyrir Óskar Örn þar sem hann skákaði tveimur meisturum í sögubók KR-inga.

Þar skaut hann Ellerti B. Schram ref fyrir rass á listanum yfir markahæstu leikmenn í sögu félagsins og sameiningartákninu Þormóði Egilssyni á listanum yfir þá leikjahæstu.

Lætur verkin tala á vellinum

Í takt við hans karakter var Óskar Örn hógværðin uppmáluð þegar fjölmiðlamenn freistuðu þess að hefja hann upp til skýjanna í tilefni þessara áfanga. Sagði einatt að þetta væri eitthvað sem væri vert að hugsa um þegar fótboltaferlinum lyki. Nú væri bara næsta mál að hala inn stig með liði sínu.

Óskar Örn er eitt besta dæmi þess að aldur er bara tala og það sem skiptir mestu máli er hvernig leikmenn hugsa um sig. Það hefur hann sannað með því að standast mönnum snúning og vel það, orðinn 37 ára gamall.

Næsta áskorun hans er að gera það áfram til þess er hann verður 39 ára gamall, en hann samdi til tveggja ára í Garðabænum.

Verður ávallt hlýtt til KR

Óskar Örn sagði í viðtölum við fjölmiðla þegar hann var spurður um viðskilnaðinn við KR, að félagið myndi ávallt eiga stóran hluta af hjarta sínu. Stuðningsmenn KR munu eflaust hugsa hlýtt til Óskars Arnar þó þeir muni bölva honum ef hann gerir þeim grikk á nýjum vettvangi.

Á tíma sínum hjá KR hefur Óskar Örn þrisvar sinnum orðið Íslandsmeistari, 2011, 2013 og 2019. Þá hefur hann einnig orðið bikarmeistari fjórum sinnum með KR-liðinu.

Hljóðlátur töframaður

Skúli Jón Friðgeirsson, fyrrverandi samherji hjá KR

Þegar Óskar Örn kom fyrst í KR sá maður fljótlega að þar var á ferð mjög hæfileikaríkur íþróttamaður, enda kom það síðan í ljós að hann var mjög fjölhæfur og í raun góður í hvaða íþrótt sem er.

Nema þá kannski langhlaupum, enda kom hann iðulega síðastur á margfrægum hlaupaæfingum Teits Þórðarsonar. Óskar Örn er mjög skemmtilegur, en er einn af þeim sem líður ekkert vel með að þurfa að standa í sviðsljósinu.

Þess vegna fór aldrei neitt sérstaklega mikið fyrir Óskari í klefanum en hann gaf hópnum ótrúlega mikið með því að setja kröfur á æfingum og sýna fordæmi í því hvernig hann æfði og hugsaði um sig.

Það átti ekki einungis við um hvað hann gerði á æfingununum sjálfum heldur var hann alltaf að og leit íbúðin hans á tímabili frekar út fyrir að vera líkamsræktarstöð en rými þar sem hann bjó.

Þó að þetta hafi vissulega verið smá pirrandi fyrir hálf lata leikmenn eins og sjálfan mig þá setti þetta standard fyrir hópinn, þegar besti leikmaður liðsins var að leggja þetta á sig fyrir liðið.

Það eru því ekki bara óteljandi mörk og stoðsendingar Óskars Arnar sem hafa hjálpað KR-liðinu að sækja titla á tíma hans hjá félaginu, heldur gerði metnaður hans aðra leikmenn liðsins betri.

Síðasta verk Óskars í KR-treyjunni var að skjóta KR-ingum í Evrópukeppni a næsta ári
fréttablaðið/anton

Listi yfir afrek Óskars

14 ára lék Óskar Örn fyrsta leik í meistaraflokki fyrir Njarðvík.

3 Íslandsmeistaratitla vann Óskar Örn með KR.

4 bikarmeistaratitla vann hann í búningi KR.

348 leikir í efstu deild og leikjahæstur.

85 mörk í efstu deild og níundi markahæsti.

296 leikir í efstu deild með KR og er leikjahæstur í sögu félagsins.

73 mörk fyrir KR í efstu deild og er markahæstur í sögunni.

552 leikir alls fyrir KR og allt í allt 157 mörk.

29 Evrópuleikir fyrir KR og tvö mörk.