Geir Þorsteinsson, framkvæmdastjóri knattspyrnudeildar ÍA, segir mikla stemningu á Akranesi fyrir komandi leik, en meðbyr hefur skapast í þessu mikla fótboltasamfélagi í síðustu umferðum Íslandsmótsins þar sem Skagaliðið bjargaði sér frá falli. „Það er búið að selja hátt í 5.000 miða og draumurinn hjá forráðamönnum beggja félaga er að fá 6.000 manns á Laugardalsvöllinn.“

Skagamenn þyrstir í titil eftir 18 ára bið sem þykir of löng á Skaganum. Skagamenn munu hita upp í Minigarðinum fyrir leikinn á laugardaginn kemur. Skagamenn eiga þátt í áhorfendameti á bikarúrslitaleik en það var sett árið 1999, þegar 7.401 áhorfandi sá KR bera sigurorð af ÍA. Árið 1997 mættu 6.200 á bikarúrslitaleik Keflavíkur og ÍBV sem er næstmesti fjöldi á bikarúrslitaleik.

KR-ingar munu fylgjast grannt með bikarúrslitaleiknum á laugardaginn kemur og styðja Víkinga þar sem sigur þeirra veitir Vesturbæingum sæti í Sambandsdeild Evrópu á næstu leiktíð.

Aðspurður segist Páll Kristjánsson, formaður knattspyrnudeildar KR, að sjálfsögðu vonast til þess að Víkingar vinni leikinn: ,,Það getur allt gerst í svona bikarúrslitaleik og staðan í deildinni skiptir engu máli. Það er meðbyr með báðum liðum. Það er hins vegar ekkert leyndarmál að við KR-ingar vonumst til þess að Víkingar klári leikinn, enda myndi það skila okkur hinu eftirsótta Evrópusæti. Ég er hins vegar ekkert að fara að klæða mig í Víkingstreyjuna og syngja og tralla í stúkunni. Þeir verða að sjá um það sjálfir. Ég vona bara við fáum skemmtilegan leik, með fjölmörgum áhorfendum og að úrslitin verði okkur KR-ingum hagstæð. Ég nenni samt engri spennu,“ segir Páll kíminn að lokum.