Skagamenn ætla að leggja fram tillögu á ársþingi KSÍ í febrúar um fjölgun liða í efstu deild í 14 á næsta ári og 16 árið 2022. Áfram yrði spilað tvær umferðir en töluvert hefur verið rætt um þrefalda umferð. Það hugnast Jóhannesi Karli Guðjónssyni, þjálfara ÍA ekki. „Þrefalda umferðin í 12 liða efstu deild er ógerleg að mínu mati á Íslandi. Við höfum ekki leikdaga fyrir slíkt og það er að okkar mati of stórt stökk.“

Hann segir að fjölmargir hafi slegið á þráðinn og sýnt tillögunni stuðning. „Við höfum fengið mjög jákvæð viðbrögð og það eru margir ánægðir með að einhver skuli ríða á vaðið og byrja þetta ferli. Það er líklegt að ansi mörg lið muni styðja tillöguna en auðvitað er ekkert komið í hendi fyrr en það er búið að kjósa á þinginu.

Það á líka eftir að álykta um málið inn í stjórnum félaganna áður en menn gefa frá sér formlegan stuðning. Við viljum fá sem flest lið með okkur.“ Jóhannes bendir á að tillagan sé hugsuð fyrst og fremst til að fleiri ungir íslenskir leikmenn fái tækifæri til að spila í meistaraflokki og í efstu deild. Það myndi efla íslenska knattspyrnu til framtíðar. „Við gerum okkur grein fyrir því að þetta tekur tíma og auðvitað er það þannig að það er bil á milli þeirra sem eru að koma upp og svokallaðra toppliða. Það mun alltaf verða þannig.

Það eru öflug lið í efstu deild og það verður alltaf þannig en við viljum fjölga liðunum sem eiga tækifæri til að spila þar. Það sem mér finnst stærsti punkturinn er að við stöndum á tímamótum varðandi rekstur á íslenskum knattspyrnufélögum. Hann er erfiður og mun verða erfiður áfram. Félögin þurfa að gera upp við sig hvaða rekstrarmódel þau vilja og hvaða stefnu þau vilja taka í leikmannamálum. Persónulega liggur það beinast við að gefa ungum og efnilegum tækifæri til að spila í deildunum. Við erum ekki að horfa bara á tímabilið 2021. Við erum að horfa til lengri tíma, til að efla knattspyrnuna um allt land.“

Hann vonast til að liðin verði með þessu betur mönnuð, hafi betri aðstöðu, fái betri þjálfara og allt utanumhald verði almennt betra. „Ég er á því að því fleiri sem ala sína leikmenn upp í meistaraflokk muni það skila okkur, sem þjóð, betri leikmönnum. Fyrir okkur er það markmiðið.“