Sigurður Bragason, þjálfari kvennaliðs ÍBV í handbolta, segir farir sínar ekki sléttar af samgöngumálum við Vestmanneyjar sem hann hefur kynnst mjög vel í starfi sínu með ÍBV. Í samtali viðEyjafréttir segir hann samgöngurnar sem núna sé boðið upp á vera þær versu á hans þrjátíu ára ferli í meistaraflokksbröllti í handbolta.

„Ég er búinn að vera í þessu meistaraflokksbrölti í tæp 30 ár og þetta er það lélegasta sem mér hefur verið boðið upp á. Þegar ég var að byrja í þessu var flogið með fokker fram og til baka sem beið með áætlun þar til eftir leiki. Eftir að það hætti var ýmist flogið með áætlun eða á Bakka og komið heim að kvöldi til. Nú er fátt annað í boði en Herjólfur eða rándýrt leiguflug. Maður væri kannski líka ekki í þessu tuði ef það væri eitthvað verið að gera. Hvers vegna yfirvöld bregðast bara við þegar allt er komið í skrúfuna? Af hverju í ósköpunum er t.d. ekki komið alvöru grafskip í þetta verkefni núna 12 árum eftir opnun hafnarinnar? Það sjá það allir sem vilja að þetta hrúgald sem okkur er boðið upp á er ónýtt,“ segir Sigurður í samtali við Eyjafréttir.

Hann segir leikmenn og þjálfarateymi liðsins oftar en ekki verða fyrir vinnutapi sökum slæmra samgangna til og frá Vestmannaeyjum. Þá bitni þetta einnig á liðinu sjálfu. ÍBV mætti Aftureldingu í Mosfellsbæ í gærkvöldi og á síðan útileik gegn Fram á laugardaginn næstkomandi.

„Við erum að reyna að halda úti topp liði hérna og setja pening í þetta. Svona brölt bitnar líka á æfingum, undirbúningi og hvíld leikmanna það segir sig sjálft. Nú erum við að fara mæta toppliði á laugardag við komum heim seinnipartinn í dag og förum aftur í skipið á morgun það sjá það allir að þetta er ekki góður undirbúningur.“

Sigurður er augljóslega fúll með stöðuna. „Æ ég er bara ógeðslega fúll með þetta og það er kannski eina leiðina að láta aðeins í sér heyra, ég hef allavegana ekki séð þingmenn eða aðra stökkva til með einhverja lokunarstyrki fyrir okkur við þessar aðstæður þrátt fyrir mikinn kostnað og tekjutap,“ sagði Sigurður Bragason, þjálfari ÍBV í samtali við Eyjafréttir.