Það var ríkjandi heimsmeistarinn, Max Verstappen, ökumaður Red Bull Racing sem bar sigur úr býtum í Ungverjalands-kappakstrinum í Formúlu 1 í dag. Verstappen hóf keppnina í 10. sæti en náði með góðum akstri ásamt því að nýta sér mistök keppinautanna að skila sigri í hús í síðustu keppninni fyrir sumarfrí.

Það var þungskýjað í Ungverjalandi í dag og virtist sem rigning gæti skollið á brautinni tafarlaust en það gerðist hins vegar ekki. George Russell, ökumaður Mercedes hóf keppnina á rásspól en endaði í 3. sæti. Liðsfélagi hans, sjöfaldi heimsmeistarinn Sir Lewis Hamilton endaði í 2. sæti.

Ferrari virtist hafa keppnina í höndum sér með Charles Leclerc í forystusætinu þegar leið á keppnina en rangar ákvarðanir varðandi keppnisáætlun sá til þess að liðið kastaði frá sér því sem hefði geta endað með sigri í dag.

Max Verstappen náði með sigrinum að auka forystu sína á toppi stigakeppni ökumanna og eru hann sem og Red Bull Racing í mjög góðri stöðu nú þegar tekur við smá sumarfrí í Formúlu 1.